Gríðarlega víðtæk leit stendur yfir að fyrrverandi hermanni í Suðvestur-Frakklandi en hann hefur ítrekað verið dæmdur fyrir heimilisofbeldi. Að sögn yfirlögregluþjóns er markmiðið að ná honum lifandi en maðurinn hefur skotið að lögreglu í hvert skipti sem hún nálgast hann.
Maðurinn, sem er 29 ára gamall, er vopnaður veiðiriffli og skaut á lögreglu þegar hún var kölluð að heimili fyrrverandi sambýliskonu hans í þorpinu Lardin-Saint-Lazare um helgina.
Sérsveit lögreglu, sjö þyrlur, leitarhundar og fleiri hundruð lögreglumenn taka þátt í aðgerðunum en mannsins er leitað í skóglendi í Dordogne-héraði. Að sögn lögreglu þekkir maðurinn svæðið vel og á auðvelt með að felast.
André Petillot, yfirlögregluþjónn í héraðinu, segir að í hvert skipti sem lögreglan nálgast manninn svari hann með skothríð. „Við gerum allt sem í okkar valdi stendur til þess að fá hann til að gefast upp en við viljum líka koma í veg fyrir slys meðal okkar manna.“
„Markmiðið er að ná honum lifandi,“ segir Petillot. Að sögn saksóknara í Perigueux hefur maðurinn fjórum sinnum verið dæmdur fyrir heimilisofbeldi en fyrsti dómurinn er frá árinu 2015. Nú í maí var nýjasti dómurinn yfir manninum, átta mánaða fangelsi, mildaður og honum gert að bera ökklaband í stað þess að vera vistaður í fangelsi. Petillot segir að ökklabandinu sé ætlað að koma í veg fyrir að maðurinn nálgist heimili fyrrverandi sambýliskonu, ökklabandið sé ekki staðsetningartæki.
Heimildir AFP-fréttastofunnar herma að maðurinn hafi verið í hernum frá árinu 2011 til ársins 2016. Talið er að hann sé vopnaður Winchester 30-30 veiðiriffli sem yfirleitt er notaður á þessum slóðum til að veiða villisvín. Að sögn saksóknara er maðurinn ekki með heimild til að bera skotvopn vegna fyrri brota og hann sé því einnig grunaður um ólöglegan vopnaburð.
Maðurinn kom heim til fyrrverandi konu sinnar um miðnætti á laugardag. Óskað var eftir aðstoð lögreglu eftir að hann hótaði unnusta hennar og þegar lögregla kom á vettvang skaut hann á hana áður en hann lét sig hverfa inn í skóginn.
Íbúar á svæðinu eru hvattir til að halda sig innandyra og hefur vart nokkur sést á ferli síðan þá í þorpinu.