Aflétta hömlum og nánast ekkert smit

AFP

Ísraelar færðust nær því að aflétta hömlum vegna kórónuveirunnar í dag þar sem bólusetningar ganga afar vel í landinu. 

Nú þarf fólk ekki lengur að sýna bólusetningarvottorð við komuna á veitingastaði og viðburði og eins eru ekki lengur fjöldatakmarkanir í gildi. Heilbrigðisráðherra landsins, Yuli Edelstein, segir að ráðuneytið muni á næstu tveimur vikum ræða afnám grímuskyldu innandyra. 

Þrátt fyrir afléttingu er landið nánast lokað fyrir erlenda ferðamenn en samkvæmt ferðamálaráðuneytinu mega bólusettir og nánir ættingjar íbúa koma til landsins. 

Í gær greindust aðeins fjögur smit í Ísrael og þar eru nú 350 virk smit. Í byrjun árs voru smitin 10 þúsund á dag og 88 þúsund virk smit. 

Þetta breyttist eftir að Ísrael gerði samning við Pfizer-BioNTech um afhendingu bóluefnis. Yfir 90% íbúa Ísraels yfir fimmtugu eru bólusett eða hafa náð bata eftir að hafa smitast af Covid-19.

Börn þurfa enn að vera með grímu í skólum í Ísrael en þar hafa aðeins litlir hópar barna yngri en 18 ára verið bólusettir. 

Sprengdu rannsóknarstofuna og drápu lækna

Frá Gaza.
Frá Gaza. AFP

Nýjum smitum meðal Palestínumanna á Vesturbakkanum hefur einnig fækkað undanfarnar vikur þar sem íbúar þar hafa fengið bóluefni í gegnum Covax-bólusetningarsamstarfið sem miðar að því að bólusetja íbúa fátækari ríkja. 

Ísraelsk stjórnvöld hafa sætt gagnrýni fyrir að neita að bólusetja flesta þá Palestínumenn sem búa á Vesturbakkanum eða á Gaza-ströndinni. Aftur á móti hefur ísraelsku landtökufólki á Vesturbakkanum verið boðið í bólusetningu. Ísraelsk yfirvöld segja palestínsk yfirvöld bera ábyrgð á þessu. 

Covid-sjúklingur á Dura-sjúkrahúsinu í þorpinu Dura vestur af Hebron á …
Covid-sjúklingur á Dura-sjúkrahúsinu í þorpinu Dura vestur af Hebron á Vesturbakkanum. AFP

Vegna loftárása á Gaza hefur ekki verið hægt að skima fyrir kórónuveirunni þar því loftárásir Ísraelshers hæfðu meðal annars einu rannsóknarstofuna sem getur gert slíkar skimanir á Gaza og eins voru tveir læknar sem þar störfuðu drepnir í loftárásunum. Þar sem tugþúsundir íbúa þurftu að leita skjóls í neyðarskýlum vegna árásanna var ekki hægt að virða sóttvarnareglur, svo sem fjarlægðarmörk. Á mánudag var tilkynnt um 246 ný smit á Gaza og á Vesturbakkanum voru þau 56 talsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert