Bólusetja börn í Póllandi

AFP

Byrjað verður að bólusetja börn á aldrinum 12 til 15 ára í Póllandi 7. júní. Fyrst í stað verður bólusett á bólusetningamiðstöðvum en í september verður byrjað að bólusetja börn í skólum.

Þetta kom fram í máli Michal Dworczyk, sem fer með bólusetningar í ríkisstjórn Póllands. Í gær samþykkti sóttvarnalæknir Póllands að veita heimild til að bólusetja börn með bóluefni Pfizer í kjölfar ákvörðunar Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) um að veita bóluefni Pfizer markaðsleyfi niður í 12 ára aldur. 

Í Póllandi geta allir 16 ára og eldri farið og látið bólusetja sig. Eins og staðan er núna hafa 64% fullorðinna fengið að minnsta kosti fyrri bólusetningu en 22% eru fullbólusett. Smitum hefur fækkað hratt í Póllandi að undanförnu. 

BBC

Sérfræðinganefnd Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) um lyf fyrir menn (CHMP) mælti með því í síðustu viku að ábending bóluefnis BioNTech/Pfizer (Comirnaty) verði útvíkkuð þannig að einstaklingar 12-15 ára geti fengið bólusetningu með bóluefninu.

Notkun bóluefnis í umræddum hópi verður eins og fyrir eldri einstaklinga; það á að gefa í vöðva á upphandlegg tvisvar sinnum og eiga þrjár vikur að líða á milli bólusetninga.

Rannsóknin, sem liggur til grundvallar meðmælum CHMP, náði til 2.260 barna á aldrinum 12-15 ára. Ónæmissvarið í bólusetta hópnum reyndist áþekkt ónæmissvari einstaklinga á aldrinum 16-25 ára fyrir sama bóluefni. Reyndist vörnin í bólusettum hópi 100%, þar sem ekkert bólusettu barnanna fékk COVID-19 sjúkdóm samanborið við 16 börn (af 978) sem fengu lyfleysu.

Algengustu aukverkanir í þessum aldurshópi reyndust svipaðar og hjá þeim sem eldri eru. Þeirra á meðal eru verkur á stungustað, þreyta, höfuðverkur, vöðva- og liðverkir, kuldahrollur og hiti. Umræddar aukaverkanir eru alla jafna vægar eða miðlungsmiklar og ganga til baka á fáeinum dögum eftir bólusetningu.

CHMP bendir á, að í ljósi þess hversu takmarkarkaður fjöldi barna tók þátt í rannsókninni, sé hugsanlegt að mögulegar sjaldgæfar aukaverkanir hafi ekki komið fram í henni. Einnig benti nefndin á yfirstandandi mat PRAC á tilvikum hjartavöðvabólgu og gollurshússbólgu (bólgu í himnu utan um hjartað) sem fram hafa komið eftir bólusetningu með Comirnaty, og þá fyrst og fremst hjá einstaklingum undir þrítugu. Að svo stöddu er ekkert sem bendir til að umrædd tilvik stafi af notkun bóluefnisins en EMA skoðar málið ítarlega.

Þrátt fyrir þessi atriði var mat CHMP á þann veg að ávinningur af notkun bóluefnisins í þessum aldurshópi vegi þyngra en áhættan, og þá sérstaklega hjá einstaklingum í aukinni áhættu á að fá alvarlegan COVID-19 sjúkdóm.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka