Yfirvöld í Perú hafa meira en tvöfaldað tölu látinna af völdum Covid-19 eftir endurskoðun á afleiðingum kórónuveirunnar í landinu. Þetta veldur því að hvergi í heiminum hafa jafn margir látist og í Perú miðað við höfðatölu samkvæmt skráningu John Hopkins-háskólans.
Samkvæmt opinberum tölum hafa yfir 180 þúsund íbúa Perú látist af völdum kórónuveirunnar í stað 69.342 áður.
Forsætisráðherra Perú, Violeta Bermudez, sagði á fundi með fréttamönnum í gær að uppgefin tala væri byggð á ráðgjöf frá innlendum sem erlendum sérfræðingum.
Fá lönd fóru jafn illa út úr Covid-19 í Rómönsku-Ameríku og Perú og fór heilbrigðiskerfið nánast á hliðina. Eins var mikill skortur á súrefnikútum á sjúkrahúsum.
Forseti læknasamtaka landsins, Godofredo Talavera, segir að hærri dánartala komi ekki á óvart. Stjórnvöld hafi ekki gert neitt til þess að styðja sjúkrahúsin með því að útvega súrefni og að fjölga gjörgæslurúmum. Núna vanti bóluefni og að bæta þjónustu heilbrigðiskerfisins. Allt þetta valdi því að hvergi í heiminum hafa jafn margir dáið og í Perú af völdum veirunnar.
BBC greinir frá því að samkvæmt opinberum tölum hafi Covid-19 dregið 180.764 til dauða í Perú. Fyrri tölur hljóðuðu upp á 69.342. Í Kólumbíu hafa 88.282 látist og í Bólivíu rúmlega 14 þúsund. Aftur á móti hafa 460 þúsund látist af völdum Covid-19 í Brasilíu.
Áður hafði Ungverjaland verið það land þar sem dánartíðnin var hæst miðað við höfðatölu eða um 300 á hverja 100 þúsund íbúa. Nú er Perú með yfir 500 dauðsföll á hverja 100 þúsund íbúa.