Hálfa ævina í norsku fangelsi

Ila-öryggisfangelsið, Ila fengsel og forvaringsanstalt, í Bærum, rétt utan við …
Ila-öryggisfangelsið, Ila fengsel og forvaringsanstalt, í Bærum, rétt utan við Ósló. Það var á ellefta tímanum í kvöld sem Viggo Kristiansen gekk þaðan út og settist inn í bifreið föður síns sem sótti hann. Hafði Kristiansen þá setið hálfa ævina í fangelsi vegna Baneheia-málsins, 21 ár af 42. Ljósmynd/Wikipedia.org/Kjetil Ree

Á ellefta tímanum í kvöld að norskum tíma gekk Viggo Kristiansen, 42 ára gamall karlmaður frá Kristiansand í Suður-Noregi, út úr Ila-fangelsinu í Bærum, frjáls maður eftir 21 árs afplánun sem þó var ekki lokið. Hæstiréttur Noregs úrskurðaði hins vegar í dag að Kristiansen skyldi látinn laus nú þegar mál hans verður endurupptekið og lagt fyrir norskt réttarkerfi á nýjan leik.

Eins og mbl.is fjallaði ítarlega um í febrúar hlaut Kristiansen loks meðbyr í sjöundu atlögu sinni að norsku endurupptökunefndinni í sakamálum, Gjenopptakelseskommisjonen svokölluðu, vegna Baneheia-málsins, hrottalegs sakamáls sem íbúar Kristiansand minnast enn með ótta og óbeit síðan það kom upp föstudaginn 19. maí 2000.

Vinkonunum Lenu Sløgedal Paulsen, 10 ára, og Stine Sofie Sørstrønen, 8 ára, var þá ráðinn bani á grimmdarlegan hátt, þeim nauðgað og í kjölfarið stungnar til bana og lík þeirra falin í nágrenni við staðinn þar sem þær fengu sér sundsprett í góða veðrinu í vatni á Baneheia, vinsælu útivistarsvæði í Kristiansand.

Um haustið, í kjölfar umfangsmikillar rannsóknar á örlögum stúlknanna, handtók lögregla Kristiansen og Jan Helge Andersen, en báðir bjuggu þeir skammt frá vettvangi ódæðisins. Andersen játaði að lokum, eftir að DNA-sýni tengdu hann við vettvanginn svo óyggjandi þótti.

Hélt hann því hins vegar fram að Kristiansen, sem staðfastlega hefur neitað sök allar götur frá handtökunni haustið 2000, hefði lagt á ráðin um árásina á stúlkurnar og sannfært hann um að fremja glæpinn með sér.

Þyngsta refsing sem lög leyfa

Fóru leikar svo að Andersen hlaut 17 ára fangelsi og var metið til refsilækkunar að hafa játað brot sitt og aðstoðað lögreglu við að varpa ljósi á atburðarásina. Við áfrýjun þyngdi lögmannsréttur refsingu hans í 19 ár, enda hefði játningin fyrst komið fram eftir að honum var kunnugt um DNA-sönnunargögnin gegn honum.

Andersen afplánaði sína refsingu og lauk þeirri afplánun árið 2019, en Lögmannsréttur Agder dæmdi Kristiansen til þyngstu refsingar sem norsk lög leyfa, 21 árs forvaring, eða varðveislu, sem í raun getur orðið að ævilöngu fangelsi þar sem unnt er að framlengja fangelsisvistina án nýrra réttarhalda.

Viggo Kristiansen, vinstra megin, og Jan Helge Andersen eins og …
Viggo Kristiansen, vinstra megin, og Jan Helge Andersen eins og þeir litu út um aldamótin. Þeir voru handteknir 13. september 2000 í kjölfar umfangsmikillar lögreglurannsóknar eftir að þær Lena Slø­ge­dal Paul­sen, 10 ára, og Stine Sofie Sør­strøn­en, 8 ára, fundust hrottalega myrtar á Baneheia í maí. Ljósmynd/Úr einkasöfnum

Var dómurinn einkum byggður á framburði Andersens, en einnig vafasömu DNA-sýni sem hefði getað verið úr Kristiansen. Hins vegar hefði það erfðaefni, að mati réttarmeinarannsóknarstofunnar í Santiago de Compostela á Spáni, einnig getað komið frá 54,6 prósentum allra norskra karlmanna.

Í febrúar ákvað endurupptökunefndin með naumum meirihluta, þremur atkvæðum gegn tveimur, að málið skyldi opnað, rannsakað á nýjan leik og réttað að nýju yfir Kristiansen. Hafa lögmaður hans, Arvid Sjødin, og Andreas Schei héraðssaksóknari deilt um það síðan í febrúar hvort láta beri Kristiansen lausan í skjóli endurupptökunnar eða hvort honum beri að sitja áfram í hámarksöryggisfangelsinu Ila þar til nýr dómur í málinu kveður annaðhvort upp úr um sakleysi hans ellegar sekt.

Aldrei notað netbanka

Sem fyrr segir úrskurðaði Hæstiréttur Noregs að Kristiansen skyldi frjáls ferða sinna og var sá úrskurður einróma. Sótti faðir hans son sinn í Ila-fangelsið í kvöld og mun hann fyrst um sinn búa heima hjá foreldrum sínum, en eins og kom fram í spjalli norska ríkisútvarpsins NRK við fangann fyrir nokkrum dögum hefur hann aldrei notað netbanka og hefur ekki hugmynd um hvað Altinn er, vefgátt norska ríkisins fyrir ýmis gagnaskipti við borgarana, meðal annars framtalsskil, sem tekin var í notkun árið 2003.

John Christian Elden lögmaður segir í samtali við norska dagblaðið VG, að nær útilokað sé að Kristiansen fari á ný í fangelsi vegna málsins. Hvað ef hann verður sakfelldur í nýja málinu?

„Í framkvæmd færi hann þá aldrei inn. Hann hefur setið tæpt 21 ár í fangelsi og getur ekki hlotið lengri dóm dæmist hann á nýjan leik,“ segir Elden. Staðan yrði einfaldlega sú, að hlyti Kristiansen dóm við endurupptökuna teldist hann búinn að afplána hann.

Málið naut óskiptrar athygli norskra fjölmiðla allt árið 2000 og …
Málið naut óskiptrar athygli norskra fjölmiðla allt árið 2000 og urðu vatnaskil við rannsókn þess þegar Kristiansen og Andersen voru handteknir um haustið. Samsett ljósmynd/Journalisten.no

Ekki einu sinni nýr forvaring-, eða varðveislu, dómur gæti breytt þessu. „Þá þyrfti hann að gefa til kynna með hátterni sínu, að hætta væri á að hann endurtæki brotið. Nú hefur hann verið látinn laus án þess að ákæruvaldið hafi haft uppi beiðni um framlengingu refsivistar sem jafngildir yfirlýsingu þess um, að ekki teljist næg hætta fyrir hendi á endurtekinni háttsemi til að fara fram á sams konar dóm [í nýja málinu],“ segir Elden við VG.

Mörgum er órótt í dag

„Við gleðjumst, við hlökkum til að fá hann heim. Það verður erfitt, en mun ganga upp,“ sagði Trond Kristiansen, bróðir hins dæmda og nýfrjálsa, þegar hann ræddi við NRK fyrir hönd fjölskyldunnar í dag.

Í heimabænum Kristiansand hafa skoðanir íbúanna verið skiptar og margt verið rætt síðustu vikur, sumt í fjölmiðlum, annað í lægri hljóðum. Meðal annars kom til tals hvort rétt væri að Kristiansen nyti lögregluverndar eftir að hann yfirgæfi Ila-fangelsið og íhugaði lögmaður hans að fara fram á þá ráðstöfun.

Harald Furre, fyrrverandi bæjarstjóri í Kristiansand, kveður málið allt hafa sett mark á bæjarfélagið sem seint verður afmáð. „Við verðum að bera traust til réttarkerfisins og ákvarðana þess, en á því leikur enginn vafi að mörgum er órótt í dag. Drápin í Baneheia mörkuðu djúp spor og andrúmsloftið var þungt í bænum um tíma eftir maí 2000. Réttarhöldin og það sem þar kom fram gerðu mörgum felmt við,“ segir Furre við NRK.

Kveðst bæjarstjórinn fyrrverandi vonast til að Kristiansen beri gæfu til að höndla málið miðað við aðstæður og minnir á að hann hafi enn ekki verið sýknaður í nýja málinu. „Nýja málið er ekki hafið enn þá. Hann er látinn laus á meðan þess er beðið. Hér er mikil óvissa í loftinu og miklar tilfinningar frá liðnum tíma,“ segir hann að lokum.

NRK

NRKII (úrskurður Hæstaréttar í dag)

NRKIII (krefst lausnar eftir úrskurð endurupptökunefndar)

VG

VGII (íhugar lögregluvernd)

Aftenposten

Dagbladet

Fædrelandsvennen

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert