Krefjast nýrra aðgerða í baráttunni við faraldurinn

AFP

Leiðtogar heimsins verða að skuldbinda sig til þess að gæta meira jafnræðis þegar kemur að dreifingu bóluefna við kórónuveirunni til þess að hægt sé að ná böndum á faraldrinum segja yfirmenn fjögurra alþjóðlegra stofnana.

Þetta kemur fram í aðsendri grein sem forstjórar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), Alþjóðabankans, Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (AGS) og Alþjóðaviðskipta­stofn­un­ar­inn­ar (WTO) í Washington Post í dag. Þeir segja að ójafnræðið í bólusetningum beri ábyrgð á nýjum stökkbreyttum afbrigðum veirunnar sem eru að valda nýjum smitbylgjum í þróunarlöndunum. 

Yfir 3,5 milljónir hafa látist af völdum Covid-19 frá því faraldurinn hófst um áramótin 2019 og 2020. Sérfræðingar hafa áhyggjur af því að vegna þess hvað misskiptingin er mikil milli auðugra og fátækari ríkja þegar kemur að dreifingu bóluefna muni það valda því að farsóttin muni vara lengur og valda enn verra tjóni en annars væri.  

„Að binda enda á farsóttina er möguleiki – það krefst alheimsaðgerða núna,“ segir í grein Kristalina Georgieva, forstjóra AGS,  Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóra WHO, David Malpas, forstjóra Alþjóðabankans og Ngozi Okonjo-Iweala forstjóra WTO.

Þau biðla til G7-ríkjanna en það eru sjö helstu iðnríki heims, til að samþykkja samstarfsamning sem miði að því að bólusetja heiminn. Til þess þarf að koma fjármagn frá ríkari þjóðum heims en leiðtogar G7 munu hittast á fundi í Bretlandi síðar í mánuðinum.

Þau mæla með því að samþykkt verði á fundi G7 að fjármagna 50 milljarða bandaríkjadala áætlun sem AGS hefur sett fram til að auka líkurnar á að binda endi á faraldurinn. 

WHO hefur ekki legið á skoðun sinni varðandi misréttið þegar kemur að bólusetningum í heiminum. Tedros mælti með því í síðasta mánuði að ríkar þjóðir myndu fresta tímabundið að bólusetja börn og ánafna frekar bóluefninu til annarra þjóða sem eru skammt á veg komnar varðandi bólusetningar við Covid-19. 

Ríkari þjóðir heims hafa gert einkasamninga við lyfjafyrirtækin og komist þannig yfir meirihlutann af þeim 1,8 milljörðum bóluefnaskammta sem hafa þegar verið gefnir í heiminum. Í fátækari ríkjum er búið að bólusetja innan við 1% íbúanna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka