Skar sig á háls í dómsal

Lögreglumenn og bráðaliðar bera Latypau upp í sjúkrabíl fyrir utan …
Lögreglumenn og bráðaliðar bera Latypau upp í sjúkrabíl fyrir utan dómshús í Minsk. Skjáskot/Twitter

Hvítrússneskur aðgerðarsinni, Stsyapan Latypau, lést í dag eftir að hafa skorið sjálfan sig á háls, þegar hann kom fyrir dómara í landinu. Þar bar hann vitni um pyndingar í fangelsum í Hvíta-Rússlandi, sem hann sætti eftir að hann var handtekinn í fyrra, fyrir að biðja sérsveitarmenn um að framvísa skilríkjum því til sönnunar að þeir væru lögreglumenn. 

Einn helsti ráðgjafi Svetlönu Tsíkanovskaju, leiðtoga stjórnarandspyrnuhreyfingar Hvít-Rússa, deilir myndbandi á twittersíðu sinni þar sem bráðaliðar og lögreglumenn sjást bera Latypau inn í sjúkrabíl til aðhlynningar. 

Grimmileg aðför gegn stjórnarandstæðingum heldur áfram

Latypau var handtekinn þann 15. september í fyrra. Á twittersíðu Franak Viacorka, fyrrnefnds ráðgjafa Svetlönu Tsíkanovskaju, segir að hann hafi valið dauðann í stað þess að játa uppdiktuð brot sín. 

Ekki er langt síðan aðgerðarsinninn Roman Protasevich var látinn játa á sig brot sem enginn grundvöllur var fyrir að hann hafi framið. Sömuleiðis var hann látinn játa fyrir myndavél sömu brot og segja stjórnarandstæðingar augljóst að hann hafi verið pyntaður í fangelsi. 

Roman Protasevich er sá sem var um borð í flugvél írska flugfélagsins Ryanair, sem gert var að lenda í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands á leið sinni frá Grikklandi til Litháen. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka