Fyrrverandi liðsmaður í bandaríska sjóhernum sem var dæmdur fyrir njósnir og situr í fangelsi í Rússlandi hefur hvatt Joe Biden Bandaríkjaforseta til að skipta á föngum við Vladimir Pútín Rússlandsforseta þegar þeir hittast í Genf 16. júní.
Paul Whelan var starfsmaður fyrirtækis sem útvegaði varahluti í bandaríska bíla þegar hann var handtekinn á hóteli í Moskvu, höfuðborg Rússlands, í desember 2018. Hann var dæmdur í 16 ára fangelsi í júní 2020.
Í viðtali við fréttastofu CNN sagðist hann vera í haldi sem gísl vegna stirðra samskipta Bandaríkjanna og Rússlands.
„Mannrán á bandarískum ríkisborgara má ekki líðast nokkurs staðar í heiminum,“ sagði hann í símaviðtali úr fangelsinu.
„Þetta snýst ekki um Rússland gegn mér. Þetta snýst um Rússland gegn Bandaríkjunum og Bandaríkin verða að svara fyrir þetta gísla-milliríkjaástand og leysa það eins fljótt og mögulegt er,“ sagði hann.
„Ég bið því Biden Bandaríkjaforseta um að ræða þetta mál af krafti og leysa í samtölum við rússneska ráðamenn.“