Danmörk hefur átt gott samtal við bandalagsþjóðir sínar í Evrópu og ekki er þörf á því að tjasla saman sambandi ríkisins við Frakkland og Þýskaland.
Þetta sagði Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, í dag um uppljóstranir danska ríkisútvarpsins þess efnis að danska leyniþjónustan hafi haft milligöngu um njósnir Bandaríkjamanna um leiðtoga nokkurra Evrópuríkja.
Hún sagði þó að ekki ætti að tíðkast að njósna um bandamenn sína.
Meðal þeirra sem njósnað var um voru Angela Merkel Þýskalandskanslari og hátt settir ráðamenn í Noregi, Svíþjóð og Frakklandi.
„Mér finnst ekki rétt að segja að það þurfi að laga samband okkar við Frakka eða Þjóðverja. Við höfum átt í góðu samtali við þessar þjóðir, þar á meðal um njósnastarf,“ sagði Mette Frederiksen.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, mun í vikunni ræða við Tine Bramsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, um hvort njósnað hafi verið um íslenska ráðamenn. Nú þegar hefur hann sent erindi til danskra stjórnvalda þar sem svara um þessi mál er óskað.
Í samtali við mbl.is segir Runólfur Þórhallsson, hjá greiningardeild ríkislögreglustjóra, að njósnir Dana séu ekki til rannsóknar embættisins. Svo að rannsókn geti hafist verði að liggja fyrir rökstuddur grunur um að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað, og að eins og sakir standa virðist svo ekki vera.
Hins vegar sé málið til óformlegrar umfjöllunar innan embættisins. Felst það meðal annars í því að fylgst sé með nýjustu fréttum af málinu. Þá er samtal milli embættisins og netöryggissveitar Póst- og fjarskiptastofnunar virkt.