Ekkert sem réttlæti það sem hann gerði

Paul Hodgkins, 38 ára kranastjóri í Tampa.
Paul Hodgkins, 38 ára kranastjóri í Tampa. Ljósmynd/Bandaríska dómsmálaráðuneytið

Flórída-búi hefur játað sök í máli gegn stuðningsmönnum Donalds Trumps, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, sem ruddust inn í þinghúsið í Washington á þrettándanum. Verjandi hans segir að ekkert réttlæti það sem hann gerði. 

Paul Hodgkins, 38 ára kranastjóri í Tampa, ruddist inn í þingsal öldungadeildarinnar klæddur stuttermabol þar sem á stóð Trump 2020 ásamt fjölda fólks 6. janúar. Múgur sem vildi koma í veg fyr­ir að þing­heim­ur staðfesti kjör Joe Biden í embætti for­seta.

AFP

Hodgkins er einn þeirra 450 sem hafa verið ákærðir fyrir aðild að óeirðunum. Ákæran gegn Hodgkins var í fimm liðum þar á meðal fyrir óspektir en lögmönnum hans tókst að semja við ákæruvaldið og ná þeim niður í eina ákæru. Hámarksrefsing fyrir að hindra störf þingsins er 20 ára fangelsisvist en samkvæmt leiðbeinandi reglum alríkisins er mælt með 15-21 mánaðar fangelsi. 

Hodgkins hefur samþykkt að greiða 2 þúsund bandaríkjadali, sem svarar til 240 þúsund króna, í miskabætur. Mona Sedky, sem er saksóknari í málinu hefur áætlað að skemmdirnar í þinghúsinu kosti um 1,5 milljónir dala að því er segir í frétt Washington Post.

Verjandi Hodgkins, Patrick Leduc, segir að skjólstæðingur hans hafi verið 15 mínútur inni í þinghúsinu. „Það er ekkert sem réttlætir 6. janúar,“ sagði Leduc í gær. „Þess vegna stendur hann upp og játar sök. Hann veit að það sem hann gerði er rangt og ekkert sem réttlætir það.“

Hodgkins er annar til þess að játa að hafa tekið þátt í óeirðunum en sá fyrsti var Ryan Schaffer, einn af liðsmönnum Oath Keepers-samtakanna sem fjölmenntu í árásina á þinghúsið.

Tilkynning dómsmálaráðuneytisins

Ákæran

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert