Stjórnvöld í Hvíta-Rússlandi tilkynntu í dag, að Bandaríkin yrðu að fækka í starfsliði sínu í sendiráði landsins í Minsk og skilyrði fyrir vegabréfsáritunum til Bandaríkjamanna yrðu hert.
Utanríkisráðuneyti Hvíta-Rússlands sagði einnig, að heimild fyrir bandarísku þróunarstofnunina til að starfa í landinu hefði verið afturkölluð.
Eru þetta viðbrögð við refsiaðgerðum Bandaríkjanna gegn Hvíta-Rússlandi, sem gripið var til vegna harkalegra aðgerða hvítrússneskra stjórnvalda gegn óbreyttum borgurum sem mótmæltu forsetakosningum fyrr á þessu ári.
Bandaríkin tilkynntu í apríl, að viðskiptaþvinganir gegn níu hvítrússneskum ríkisfyrirtækjum yrðu teknar upp að nýju eftir að Alexander Lúkashenkó, forseti Hvíta-Rússlands, hunsaði kröfur um að láta pólitíska fanga lausa.
Anatolí Glaz, talsmaður hvítrússneska utanríkisráðuneytisins, sagði í yfirlýsingu, að refsiaðgerðir Bandaríkjanna væru ólöglegar og væru afskipti af innanríkismálum sjálfstæðs ríkis. Þá myndu þær einungis skaða óbreytta hvítrússneska borgara.
Ned Price, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, sagði á blaðamannafundi í dag, að því miður væru samskipti þjóðanna komin á þetta stig vegna þess að hvítrússnesk stjórnvöld beittu þegna sína stöðugri og vaxandi kúgun.
Hvíta húsið í Washington tilkynnti í síðustu viku, að viðskiptaþvinganir gagnvart Hvíta-Rússlandi yrðu hertar í kjölfar þess að farþegaflugvél var skipað að lenda í Minsk og hvítrússneskur andófsmaður, sem var um borð í vélinni, var handtekinn.
Árið 2008 vísaði Lúkasjenkó bandaríska sendiherranum úr landi eftir að ríkisstjórn Georges W. Bush ákvað að beita forsetann, stuðningsmenn hans og olíufyrirtæki í eigu Hvít-Rússa, viðskiptaþvingunum í kjölfar forsetkosninga þar sem maðkur var talinn vera í mysunni.