Eftir að hafa staðið nánast auðir í ár vegna kórónuveirunnar er búist við því að umferð um flugvelli Evrópu aukist verulega næstu mánuði. Alþjóðasamband flugfélaga (IATA) óttast að öngþveiti myndist á flugvöllum álfunnar í sumar þar sem ferðamenn geti þurft að bíða klukkustundum saman áður en þeir geta farið um borð vegna heilbrigðiseftirlits.
Harðar reglur eru í gildi á flestum flugvöllum í Evrópu þrátt fyrir að bólusetningaherferðir hafi dregið verulega úr smitum í álfunni.
Samkvæmt IATA tekur það mun lengri tíma fyrir fólk að fara um flugvelli nú en árið 2019. Það er tíminn sem það tekur að skrá sig inn í flug, fara í gegnum öryggis- og vegabréfsskoðun, sækja innritaðan farangur og fara í gegnum tollinn. Nú hefur bæst við sá tími sem það tekur að fara yfir PCR-vottorð, hitamælingu og önnur heilbrigðisgögn. Í tilkynningu frá IATA segir að tíminn hafi lengst þrátt fyrir að fjöldi ferðamanna sé aðeins 30% af því sem var fyrir Covid-19.
Samtökin vara við því að tíminn sem farþegar þurfi að eyða á flugvöllum geti farið í fimm klukkustundir og 30 mínútur ef umferð um flugvelli verður 75% af því sem hún var fyrir faraldurinn. Ef ekkert verði að gert geti tíminn jafnvel lengst enn frekar.
IATA áætlar að sá tími geti farið í átta klukkustundir ef umferð um flugvelli verður sú sama og hún var fyrir faraldurinn. Það er sá tími sem það tekur að komast um borð í flugvél og af flugvelli á áfangastað.
Afar ólíklegt er að svo verði ef spá Evrópudeildar Alþjóðasamtaka flugvalla (ACI Europe) verður að veruleika. Því þar er gert ráð fyrir að 125 milljónir muni ferðast með flugi í Evrópu í ágúst sem er tæplega helmingur þeirra farþega sem fóru um flugvelli álfunnar fyrir tveimur árum.
Samtök þeirra sem annast öryggiseftirlit á flugvöllum í Evrópu, Eurocontrol, spá því að flugumferðin verði 46-69% af því sem var í ágúst fyrir tveimur árum. Þetta fari allt eftir þróun faraldursins næstu tvo mánuði.
Rafræn bólusetningarskilríki Evrópusambandsins taka gildi 1. júlí en þau sýna fram á hvort viðkomandi er bólusettur, er með mótefni vegna Covid-sýkingar eða hafi farið í sýnatöku og ekki reynst sýktur.