Vopnaðir árásarmenn rændu 136 skólabörnum í Nígeríu á sunnudag. Þetta tilkynntu nígerísk yfirvöld í morgun. Börnin voru í skólanum þegar árásarmennirnir létu til skarar skríða og fóru með þau í skóglendi í grenndinni til þess að freista þess að semja um lausnargjald.
Árásir af þessu tagi eru tíðar í dreifbýlum í Nígeríu, þar sem skólabörn dvelja á heimavist þar sem lítið er um öryggisráðstafanir. Árásin sem tilkynnt var um í dag er aðeins ein margra slíkra árása sem gerðar hafa verið undanfarin misseri. Yfir 700 börnum hefur verið rænt síðan í desember í fyrra.
Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu, hefur hvatt lögregluyfirvöld og leyniþjónustu landsins til þess að setja leitina að börnunum í algjöran forgang.
Foreldrar barnanna kalla eftir því að yfirvöld reyni hvað þau geta til þess að koma þeim aftur til fjölskyldna sinna. Yfirvöld í Nígeríu segja þó að ekki verði samið um lausnargjald, heldur verði frekar samið um að börnin fái að snúa aftur til síns heima, gegn þá mögulega vægari refsingu árásarmannanna.