Álagið bugaði þolanda sem greindi frá

Áströlsk kona sem greindi opinberlega frá því að henni hefði verið nauðgað á skrif­stofu ráðherra í þing­inu hefur verið lögð inn á sjúkrahús vegna andlegs álags sem fylgt hefur því að greina frá ofbeldinu.

Brittany Higgins var lögð inn á sjúkrahús í gærkvöldi að sögn unnusta hennar, David Sharaz. Higgins greindi frá því í viðtali við news.com.au í febrúar að henni hefði verið nauðgað af starfs­bróður á skrif­stofu nú­ver­andi varn­ar­málaráðherra, Lindu Reynolds, árið 2019 eft­ir að hafa farið á bar með vinnu­fé­lög­um hjá Frjáls­lynda flokkn­um. 

Þegar hún til­kynnti ódæðið fékk hún ekki stuðning yf­ir­manna sinna. Málið vakti mikla reiði í Ástralíu og setti af stað nýja #MeToo-bylgju en kynjamisrétti og kvenfyrirlitning í áströlskum stjórnmálum er umtöluð að því er segir í frétt BBC

Sharaz segir í viðtali að hún muni þurfa tíma til að jafna sig eftir látlausan pólitískan þrýsting mánuðum saman.

Higgins hefur verið talskona þess að endurbætur verði gerðar á vinnustaðamenningu þingsins og hún hefur verið öðrum konum hvatning til að greina frá kynferðislegu ofbeldi.

Tugþúsundir tóku þátt í mótmælum víðs vegar um Ástralíu í mars þar sem kynferðislegu ofbeldi og mismunun gagnvart konum var mótmælt. 

Nokkrir þingmenn, bæði á alríkisþinginu sem og í einstökum ríkjum, hafa verið sakaðir um kynferðislegt ofbeldi og misbeitingu í ár. Þar á meðal dómsmálaráðherra í ríkisstjórn landsins, Christian Porter. Hann neitar staðfastlega að hafa nauðgað stúlku þegar hann var unglingur. Hann féll á þriðjudag frá málsókn sem hann hafði höfðað gegn ríkisútvarpi Ástralíu, Australian Broadcasting Corporation, fyrir að hafa birt fréttir af ásökunum í hans garð. 

Þrátt fyrir pólitískan þrýsting hefur forsætisráðherra Ástralíu, Scott Morrison, neitað að láta rannsaka ásakanir á hendur Porter eftir að lögregla neitaði að fara í slíka rannsókn þar sem meintur þolandi var látinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert