Kvalræði að horfa á viðtalið

Sofia Sapega og Roman Protasevich.
Sofia Sapega og Roman Protasevich. AFP

Fjölskylda hvítrússneska blaðamannsins Roman Protasevich segir að hann hafi verið neyddur til að játa skipulagningu mótmæla gegn ríkisstjórninni í sjónvarpútsendingu í gær.

Protasevich var handtekinn í Minsk í maí eftir að farþegaþotunni sem hann var farþegi í var gert að lenda þar á leið frá Aþenu til Vilnius.

Í útsendingu ríkissjónvarps Hvíta-Rússlands í gær sést Protasevich tárvotur hrósa forseta landsins, Al­ex­and­er Lúka­sj­en­kó, og viðurkenndi hann jafnframt að hafa reynt að steypa forsetanum af stóli. 

Greinileg för eftir handjárn sáust á úlnliðum hans og segir baráttufólk fyrir mannréttindum sem og stjórnarandstæðingar í Hvíta-Rússlandi greinilegt að hann hafi verið pyntaður. 

Natalia and Dmitrí Protasevich, foreldrar Roman Protasevich.
Natalia and Dmitrí Protasevich, foreldrar Roman Protasevich. AFP

Protasevich var ritstjóri Nexta-stöðvarinnar á Telegram-skilaboðasmáforritinu þangað til í fyrra. Hann var settur á lista yfir einstaklinga sem tengdust hryðjuverkastarfsemi af ríkisstjórn Hvíta-Rússlands í fyrra.

Viðtalið við Protasevich var birt í ríkissjónvarpinu í gærkvöldi og þar sagði hann að það hefði verið hans val að koma þar fram. Hann hafi ítrekað gagnrýnt Lúka­sj­en­kó en hann sé að átta sig á því að Lúka­sj­en­kó sé að gera hið rétta og hann virði forsetann. 

Í lok viðtalsins fer hann að gráta og segist vonast til þess að einhvern daginn muni hann kvænast og eignast börn.

Faðir Protasevich segir að kvalræði hafi verið að horfa á viðtalið. „Ég þekki son minn mjög vel og ég trúi því að hann hefði aldrei sagt hluti sem þessa. Þeir hafa brotið hann niður og neytt hann til að segja það sem þurfti að segja,“ segir faðir blaðamannsins í viðtali við BBC.

Mótmælt í Vilnius í Litháen um síðustu helgi.
Mótmælt í Vilnius í Litháen um síðustu helgi. AFP

Kenneth Roth, sérfræðingur hjá Human Rights Watch, segir að það sé skelfilegt að hugsa til þess hvaða ofbeldi og hrottaskap sérsveitarmenn hafi beitt til að þvinga Roman Protasevich til að taka þátt í gerð þessa myndskeiðs. Það eigi heima sem gagn í saksókn vegna pyntinga og illrar meðferðar undir forsæti Lúkasjenkós.

Viðtalið er það þriðja sem sýnt er með blaðamanninum frá því hann var handtekinn ásamt unnustu sinni Sofia Sapega þegar þau voru á leið til Litháen þar sem þau búa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert