Lögreglumaðurinn Wayne Couzens kveðst sekur um að hafa rænt og nauðgað hinni 33 ára Söruh Everard, við fyrirtöku máls hans fyrir rétti í Bretlandi í dag.
BBC greinir frá.
Old Bailey-rétturinn í Lundúnum tók fyrir málið í morgun þar sem hinn 48 ára Couznes játaði einnig að hafa myrt Everard, en ekki var verið að taka fyrir þann hluta málsins. Að sögn verjanda Couzens er enn verið að meta sakhæfi hans.
Samkvæmt krufningarskýrslu lést Everard vegna köfnunar við þrengingu að hálsi. Sarah Everard var markaðssérfræðingur sem hvarf á göngu sinni heimleiðis frá heimili vinar hinn 3. mars í suðurhluta Lundúna.
Stórfelld leit hófst að Everard og fundust líkamsleifar hennar í skóglendi um viku síðar.
Í kjölfar morðs Everard hófst bylgja mótmæla í Bretlandi sem beindust að kynbundu ofbeldi, öryggi kvenna og valdbeitingu lögreglu.