Stund sannleikans rennur upp á sunnudag

Svo gæti farið að 12 ára valdatíð Benjamin Netanyahu líði …
Svo gæti farið að 12 ára valdatíð Benjamin Netanyahu líði formlega undir lok sunnudaginn 13. júní AFP

Á sunnudag mun ísraelska þingið kjósa um hvort ný ríkisstjórn taki við völdum. Fái samsteypustjórnin stuðning meirihluta þingsins mun það marka endalok 12 ára samfelldrar stjórnartíðar forsætisráðherrans Benjamins Netanyahus.

„Umræðurnar og kosning um nýja ríkisstjórn munu fara fram sunnudaginn 13. júní á sérstökum fundi þingsins,“ er haft eftir tilkynningu frá Yariv Levin, bandamanni Netanyahus.

Fái þessi átta flokka samsteypustjórn stuðning meirihluta þingsins mun það gjörbreyta ásýnd stjórnmálanna í Ísrael, en Netanyahu hefur setið í stól forsætisráðherra í rúman áratug og á valdatíð sinni fært stjórnmálin töluvert til hægri.

Sameinast gegn Netanyahu

Fráfarandi forsætisráðherrann hefur síðastliðna viku skotið föstum skotum á andstæðinga sína, sem sameinast í raun einungis til þess að koma honum frá völdum. Netanyahu hefur þannig hvatt hægri væng nýju samsteypustjórnarinnar til þess að hafna þessari „hættulegu vinstristjórn“.

Ný samsteypustjórn samanstendur af þremur hægriflokkum, tveimur miðju lokkum, tveimur vinstriflokkum og arabíska íslamistaíhaldsflokknum.

Fái nýja stjórnin stuðning þingsins mun keppinautur Netanyahus á hægri væng stjórnmálanna, Naftali Bennett, sitja sem forsætisráðherra til tveggja ára. Að þeim tíma loknum er gert ráð fyrir að Yair Lapid taki við forsætisráðherraembættinu.

Allt bendir til þess að Naftali Bennet verði næsti forsætisráðherra …
Allt bendir til þess að Naftali Bennet verði næsti forsætisráðherra Ísrael AFP

Eldfimt ástand 

Töluverðrar reiði hefur gætt í stjórnmálaumræðu í Ísrael undanfarna daga og vikur, og hefur ísraelska öryggisþjónustan gefið út sjaldséða viðvörun sem tekur til þess að ekki sé hvatt til lögbrota á netinu í tengslum við stjórnmálaástandið. Andstæðingar Netanyahus telja þessa viðvörun eiga fyrst og fremst við um forsætisráðherrann.

Netanyahu hefur reynt að koma í veg fyrir myndun nýrrar stjórnar með því að sannfæra hægrimenn innann samsteypustjórnarinnar um að ómögulegt sé að starfa með vinstri flokkunum og arabíska íslamistaflokknum.

Löggæsluyfirvöld hafa þurft að vera á varðbergi vegna mótmæla á vegum stuðningsmanna forsætisráðherrans, þar á meðal fyrir framan heimili stjórnmálamanna á hægri vængnum sem sakaðir eru um svik vegna þátttöku sinnar í nýrri stjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert