Liðka fyrir ferðalögum til 61 lands

Flugvöllur í Los Angeles.
Flugvöllur í Los Angeles. AFP

Bandarísk yfirvöld hafa rýmkað ferðatakmarkanir til og frá 61 landi eftir því sem bólusetningaherferð vestanhafs heldur áfram. 

Sóttvarnastofnun Bandaríkjanna tilkynnti fyrr í vikunni að 61 land hefði verið fært af fjórða stigs takmörkunum, en í þeim felst að forðast skuli öll ferðalög til og frá umræddu landi. Lönd á borð við Frakkland, Spán og Ítalíu falla nú undir þriðja stigs takmarkanir en þá geta fullbólusettir ferðalangar ferðast til og frá Bandaríkjunum til umræddra landa. Flestir farþegar frá Bretlandi þurfa að sæta 14 daga sóttkví við komuna. 

Að baki breytingunum býr nýtt mat bandarískra yfirvalda við röðun landa eftir takmörkunum. Áður voru ríki með 100 smit á hverja hundrað þúsund íbúa á fjórða stigi. Nú eru ríki með 500 smit á hverja hundrað þúsund íbúa á fjórða stigi. 

Á meðal annarra ríkja sem falla undir breytingarnar eru Danmörk, Kanada, Rússland og Sviss. Þá hefur reglum vegna ferðalaga einnig verið breytt í aðdraganda ólympíuleikanna sem fram fara í lok júlí, en bólusettir farþegar geta nú ferðast þangað og aftur heim án þess að sæta sóttkví. 

Ísland fellur undir fyrsta stigs takmarkanir í Bandaríkjunum og telst þannig meðal ríkja þar sem útbreiðsla Covid-19 er lítil og áhættan af ferðalögum sömuleiðis. Í tilmælum vegna ferðalaga til Íslands felst að ráðlagt sé að ferðamenn séu fullbólusettir fyrir brottför. 

Fréttin hefur verið uppfærð. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert