Leiðtogar Bretlands hafa undanfarna áratugi hafa alla jafna lýst sambandi Breta við Bandaríkin með frasanum „sérstakt samband“. Forsætisráðherra Bretlands, Boris Johnson, virðist nú ætla að breyta til í þessum efnum.
Johnson er sagður hafa látið Joe Biden vita í símtali að honum mislíkaði frasinn og að honum þætti frasinn láta Breta líta veiklulega út. Þetta kom fram í umfjöllun tímaritsins Atlantic á dögunum.
„Forsætisráðherrann hefur áður tekið fram að hann vilji helst ekki nota frasann,“ sagði talsmaður Johnson er hann var inntur eftir svörum vegna umfjöllunar Atlantic. „Þetta dregur þó ekki úr mikilvægi sambands okkar við Bandaríkin.“
Joe Biden og Boris Johnson funda í dag í Cornwall í Bretlandi. Dagskrá fundarins mun snúast að mestu um viðbrögð við kórónuveirufaraldrinum og umhverfismálin, auk annarra mála. Fundurinn er hluti af undirbúningsvinnu leiðtoganna fyrir G7-ráðstefnuna um helgina.