Þingmenn í Ísrael greiða í dag atkvæði um nýtt ríkisstjórnarsamstarf átta ólíkra flokka sem sameinast hafa um að mynda ríkisstjórn án Benjamins Netanyahus og steypa honum þannig af stóli eftir tólf ára samfellda setu í stóli forsætisráðherra.
Atkvæðagreiðslan mun skera úr um hvort áformin um samsteypustjórn þessara átta flokka gangi eftir eða áframhaldandi stjórnmálakrísa muni ríkja sem að öllum líkindum myndi knýja fram fimmtu þingkosningarnar síðan árið 2019 í Ísrael.
Netanyahu, sem nú situr undir ákæru fyrir spillingu, mútur og vanrækslu í opinberu embætti, hefur biðlað til þingmanna sem „kosnir eru af hægri atkvæðum“ til að hafna stjórnarsamstarfinu.
Í nótt héldu um tvö þúsund mótmælendur til fyrir utan heimili Netanyahus, sem er 71 árs, og fögnuðu tilvonandi botthvarfi hans úr ráðherrastóli.
„Fyrir okkur, er þetta stór stund og stór nótt og morgundagurinn verður enn stærri. Ég græt næstum. Við höfum barist friðsamlega fyrir þessu [brotthvarfi Netanyahus] og dagurinn er loks að renna upp,“ sagði einn mótmælendanna, Ofir Robinski, við fréttastofu AFP í nótt.