Aukin hernaðarumsvif Kína ógni alþjóðareglu

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins. AFP

Leiðtogar Atlantshafsbandalagsins segja aukin umsvif Kína í geim- og nethernaði og kjarnavopnaframleiðslu þeirra tákna ógn við alþjóðareglu. Bandalagsþjóðirnar hafa auk þess áhyggjur af vígvæðingu Rússa. Þetta kom fram á leiðtogafundi NATO í Brussel í dag. 

Jens Stoltenberg, framkvæmdarstjóri NATO, segir að bandalagsþjóðirnar muni reyna að vinna með Kína gegn loftslagsvánni og öðrum hnattrænum vandamálum. Stoltenberg varaði samt við því að framgöngu Kína á alþjóðavettvangi mætti túlka sem ógn fyrir bandalagsríki.

Leggja áherslu á samræmdar aðgerðir

„Leiðtogarnir sammæltust um að bregðast við slíkri ógn með samræmdum aðgerðum sem eitt bandalag. Við þurfum að mæta Kína til þess að verja öryggishagsmuni okkar allra,“ sagði Jens eftir fundinn í dag.

Í fréttatilkynningu frá bandalaginu lýstu ríkin enn fremur yfir áhyggjum af vígvæðingu og ögrandi aðgerðum Rússa austanmegin við NATO-ríkin sem þau sögðu „ógna öryggi Evrópuhluta bandalagsins og valda óstöðuglyndi við landamæri NATO og víðar“.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands ásamt Jens Stoltenberg á leiðtogafundinum í …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands ásamt Jens Stoltenberg á leiðtogafundinum í Brussel í dag. AFP

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnu­ráðherra eru í Brussel vegna fundarins. 

Guðlaugur Þór Þórðarson og Katrín Jakobsdóttir.
Guðlaugur Þór Þórðarson og Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert