Gagnrýnir kvikmynd um viðbrögð sín við hryðjuverkum

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands.
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands. AFP

Jacinda Arden forsætisráðherra Nýja-Sjálands gagnrýnir fyrirhugaða kvikmynd um viðbrögð hennar við hryðjuverkaárásinni á mosku í Christchurch árið 2019. Segir hún tímasetninguna lélega og athyglina á röngu viðfangsefni. 

Kvikmyndin They Are Us, sem framleidd verður í Bandaríkjunum, hefur verið harðlega gagnrýnd af nýsjálenskum múslimum. 

Arden segir að hryðjuverkaárásin í Christchurch, sem framin var af öfgasinnuðum þjóðernissinna sem trúir á mátt hvíta kynstofnsins, sé enn í fersku minni Nýsjálendinga. 51 lést í árásinni og 40 særðust. Þá segir Arden að framleiðslufyrirtæki myndarinnar hafi ekki ráðfært sig við hana. Ástralska leikkonan Rose Byrne mun fara með hlutverk Arden í myndinni. 

„Að mínu mati, og þetta er persónulegt mat, þá er þetta mjög fljótt og mjög hrátt fyrir Nýja-Sjáland,“ segir Arden í samtali við TVNZ-sjónvarpsstöðina. 

„Og þótt það séu margar sögur sem ætti að segja á einhverjum tímapunkti, þá tel ég mína sögu ekki eiga að vera þeirra á meðal – það eru sögur samfélagsins, sögur fjölskyldnanna,“ segir Arden. 

Einn framleiðenda myndarinnar, Philppa Campbell, sagði sig frá verkefninu í kjölfar ummæla Arden. 

Arden hlaut mikið lof fyrir yfirveguð og samúðarfull viðbrögð sín við árásinni, sem var versta skotárás í nútímasögu Nýja-Sjálands. Titill myndarinnar vísar í ræðu Arden sem hún flutti skömmu eftir árásina. 

Samtök ungra múslima í Nýja-Sjálandi komu af stað undirskriftasöfnun þar sem þess var krafist að hætt yrði við framleiðslu myndarinnar. Yfir 60 þúsund hafa þegar skrifað undir kröfuna. Samtökin segja að fórnarlömbum árásarinnar sé ýtt til hliðar í myndinni sem einblíni þess í stað á „viðbrögð hvítrar konu“. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka