Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins (NATO), segir að Vesturlönd eigi ekki í „köldu stríði“ við Kína. Þrátt fyrir það verði Vesturlönd að aðlagast auknum umsvifum Kínverja á alþjóðasviðinu.
Þetta sagði hann á leiðtogafundi NATO sem hófst í gær. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra sækja fundinn, sem haldinn er í Brussel, höfuðborg Belgíu.
„Við erum ekki á barmi nýs kalds stríðs og Kína eru ekki fjendur okkar, ekki andstæðingar okkar,“ sagði Stoltenberg í ávarpi sínu í morgun.
„En, í sameiningu verðum við að taka á þeim öryggisvanda sem að okkur steðjar vegna uppgangs Kínverja,“ bætti hann við.
Joe Biden Bandaríkjaforseti segist vilja endurheimta traust milli Bandaríkjanna og aðildarríkja NATO, á þessum fyrsta leiðtogafundi bandalagsins eftir að hann tók við embætti af forvera sínum Donald Trump. Trump fór enda mikinn í stjórnartíð sinni við að gagnrýna NATO og nudda sér upp við Pútín Rússlandsforseta.
Aðildarríki NATO munu skrifa undir sameiginlega viljayfirlýsingu í dag er snýr að vörnum gegn netárásum, afturköllun hermanna frá Afganistan og vandann við síaukinn áhrif Kínverja á alþjóðasviðinu.