Viðbúið að afléttingum verði frestað

Boris Johnson hefur boðað til blaðamannafundar í dag.
Boris Johnson hefur boðað til blaðamannafundar í dag. AFP

Búist er við því að afléttingum takmarkana vegna kórónuveirunnar á Englandi verði frestað vegna aukinna smita Delta-afbrigðis veirunnar. 

Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands hefur boðað til blaðamannafundar síðdegis í dag, en viðbúið er að hann tilkynni um frestun afléttinga um fjórar vikur. Til stóð að takmarkanir yrðu rýmkaðar 21. júní. 

Edward Argar, heilbrigðis- og félagsmálaráðherra Bretlands, gat ekki staðfest í samtali við BBC hvort afléttingum verði frestað. Hann sagði aftur á móti að verði afléttingum frestað um mánuð muni það skapa aukið rými fyrir síðari bólusetningu meðal Breta. 

„Ef við erum að gefa 250.000 til 300.000 seinni skammta á dag – mánuður gefur þér þá rúmlega 10 milljónir [skammta],“ sagði Argar og bætti við að Johnson skoði nú alla möguleika. 

Verði ekki af afléttingu takmarkana mun áhorfendafjöldi á íþróttaviðburðum, m.a. á þeim leikjum Evrópumótsins sem fram fara á Wembley, verða sá sami og verið hefur. Skemmtistaðir verða áfram lokaðir og ýmsar fjöldatakmarkanir verða á samkomum. 

Sérfræðingar hafa undanfarna daga kallað eftir því að afléttingum verði frestað vegna Delta-afbrigðisins, sem greindist fyrst á Indlandi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert