Útgönguspár í sveitastjórnarkosningum líta hvorki vel út fyrir flokk Emmanuels Macrons Frakklandsforseta né hægriöfgaflokk Marine Le Pen. Kosningarnar eru sagðar hafa spágildi fyrir forsetakosningarnar sem fram fara í landinu á næsta ári. BBC greinir frá.
Í kosningunum er kosið um héraðsstjórnir í 13 héruðum á meginlandi Frakklands og einu til viðbótar utan meginlandsins. Þar að auki er kosið til stjórnar í 96 minni stjórnsýslueiningum og keppa um 15.700 frambjóðendur um alls 4.100 sæti.
Útgönguspár sýna að miðjuflokkur Macrons gæti mögulega ekki náð 10% lágmarksfylgi, sem þarf til þess að geta tekið þátt í næsta þrepi sveitarstjórnarkosninganna.
Einn þingmanna úr flokki Macrons sagði að þetta væri „blaut tuska í andlitið“.
Flokkur Marine Le Pen var sagður mundu vinna eitt hérað í kosningunum, sem fram fóru í gær, sem yrði í fyrsta skipti í sögu flokksins. Nú er þó talið ólíklegt að svo verði. Marine Le Pen er ekki sjálf í framboði en hún hefur leitt kosningabaráttu flokksins.
Hún kennir stjórnvöldum um og segir að ekki hafi nóg verið gert til þess að efla trú landsmanna á stjórnmálum og lýðræði í landinu.