Inflúensan gæti orðið stærra vandamál en Covid-19 á Bretlandi í vetur, að sögn háttsetts ráðgjafa stjórnvalda um bóluefni, þar sem tíðni inflúensutilfella hefur verið býsna lág síðustu mánuði, líklega vegna samkomutakmarkana. Það hefur að öllum líkindum leitt af sér minna inflúensuónæmi á meðal bresku þjóðarinnar en skapast í venjulegu árferði.
Ráðgjafinn, Anthony Harnden, sagði í samtali við BBC að rannsóknir væru nú gerðar á því hvort mögulegt sé að bólusetja fólk fyrir inflúensu samhliða bólusetningu gegn kórónuveiru í haust.
„Ég legg áherslu á það að inflúensan gæti hugsanlega orðið stærra vandamál í vetur en Covid,“ sagði Harnden.
„Tíðni inflúensusmita hefur verið mjög, mjög lág síðustu árin og nánast engin á meðan strangar sóttvarnareglur voru í gildi og við vitum að þegar fá tilfelli hafa komið upp minnkar ónæmi þjóðarinnar fyrir inflúensu. Það getur komið í bakið á okkur svo inflúensan getur skipt miklu máli í vetur.“
Harnden lét ummælin falla þegar rætt var við hann um nauðsyn þess að skipuleggja áframhaldandi bólusetningar gegn Covid-19 í Bretlandi, sérstaklega ef þarf að bólusetja með breyttum bóluefnum til þess að takast á við ný afbrigði Covid-19.
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, sagði í dag að 19. júlí liti enn „vel út“ sem sá dagur þar sem öllum sóttvarnaaðgerðum verður aflétt í Bretlandi.