Yfirmaður mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum, Michelle Bachelet, kallar eftir samstilltum aðgerðum til endurbóta eftir verstu hnignun mannréttinda sem hún hefur séð. Í því sambandi nefndi Bachelet meðal annars aðstæður í Kína, Rússlandi og Eþíópíu.
Bachelet ávarpaði þing mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í dag og sagði öfgafátækt, ójöfnuð og óréttlæti hafa aukist.
Hún nefndi sértstaklega stríðsástandið í Tigray-héraði í norðurhluta Eþíópíu þar sem 350 þúsund manns lifa í hungursneyð og mörg hundruð óbreyttra borgara hafa verið myrtir. Bachelet sagði að fjöldi stríðsglæpa hefði átt sér stað þar.
Þá nefndi Bachelet nýju öryggislögin í Hong Kong sem fara gegn lýðræði sjálfstjórnarsvæðisins. Hún nefndi að 107 einstaklingar hefðu verið handteknir á grundvelli laganna og 57 ákærðir.
Meðal mannréttindamála í hinum ýmsu löndum mun þingið taka fyrir nýja skýrslu um kerfisbundna kynþáttafordóma.