Atkvæðagreiðsla um vantraust á ríkisstjórn Stefans Löfvens forsætisráðherra Svíþjóðar hefst í sænska þinginu klukkan 8 að íslenskum tíma, tíu að sænskum tíma.
Svíþjóðardemókratar (SD) lögðu vantrauststillöguna fram. Kosningar eiga að fara fram í Svíþjóð á næsta ári. Samkvæmt AFP stendur Löfven frammi fyrir þremur möguleikum; að segja af sér, að boðað verði til kosninga fyrr en ráðgert var eða að komist verði að pólitískri málamiðlun sem gerir ríkisstjórn Löfven kleift að sitja áfram við stjórnvölinn.
Verði vantrauststillagan samþykkt verður Löfven fyrsti forsætisráðherra Svíþjóðar til að skilja við embættið með þessum hætti.
Ríkisstjórn Löfven er skipuð Jafnaðarmannaflokki Löfven og Græningjum. Eigi vantrausttilagan fram að ganga þurfa 175 af 349 þingmönnum að samþykkja hana.
Kveikjan að vantrauststillögunni er sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að aflétta hömlum á hámarksleiguverð nýs íbúðarhúsnæðis.