Stjórn norska flugfélagsins Norwegian tilkynnti í morgun um þá ákvörðun sína, að Jacob Schram, sem gegnt hefur stöðu forstjóra félagsins frá því í janúar í fyrra, láti af störfum fyrirvaralaust og eftirmaður hans verði Geir Karlsen, fjármálastjóri félagsins síðan 2018.
„Það er mér ánægja að tilkynna að Geir Karlsen hefur gengið að tilboði um að taka við [forstjóra]stöðunni,“ skrifar Svein Harald Øygard, stjórnarformaður Norwegian, í tilkynningu til norsku kauphallarinnar í morgun. „Karlsen hefur farist vel úr hendi að leiða fjárhagslega endurreisn Norwegian. Hann hefur þá einbeitingu, traust og tileinkun sem gerir hann að besta valkosti í stöðu forstjóra,“ segir þar enn fremur.
Øygard staðfestir í samtali við norska ríkisútvarpið NRK að Schram hafi verið gert að láta af störfum í kjölfar stjórnarfundar í gærkvöldi, en neitar að tjá sig nánar um aðdraganda þess. „Um það segi ég ekkert, það sem nú skiptir máli er að Karlsen tekur nú við stjórnartaumunum og stjórnin hlakkar til að sjá það gerast,“ segir stjórnarformaðurinn og bætir því við að hann líti björtum augum til framtíðarinnar. „Við höfum stokkað félagið upp og bíðum þess sem verða vill, tíma með minni takmörkunum og fleiri flugferðum.“
Uppsagnarfrestur Schram er níu mánuðir og er honum ætlað að vera til taks við önnur tilfallandi verkefni þann tíma. Að þeim tíma liðnum nýtur hann þó áfram launa í 15 mánuði sem stjórnin reyndi að ná samningum við hann um að lækka í ljósi þeirra hremminga sem félagið hefur sætt í heimsfaraldrinum, en hafði ekki erindi sem erfiði.
Karlsen, sem tekur við sem forstjóri, mun þiggja 30 prósentum lægri laun en forveri hans, en tap Norwegian á fyrsta fjórðungi þessa árs nam 1,2 milljörðum norskra króna, jafnvirði 17 milljarða íslenskra króna.
„Schram var ekki forstjóri lengi. Þann tíma sem hann sat gafst honum nánast aldrei færi á að vera forstjóri flugfélags, hann var bara í slökkviliðinu þar sem félagið barðist í bökkum allan tímann,“ segir Jacob Pedersen, greinandi hjá Sydbank, við NRK.
Cecilie Langum Becker, álitsgjafi NRK í efnahagsmálum, segir forstjóraskiptin ekki koma á óvart. „Þegar Jacob Schram fékk stöðuna bentu margir á að Geir Karlsen hefði í raun átt að vera sá sem fengi hana. Svo þessi skipti núna koma kannski ekki eins og þruma úr heiðskíru lofti. Ekkert kemur fram [í tilkynningunni til kauphallarinnar] um hvort stjórnin hafi verið ánægð með störf Schram eður ei, en þar má þó lesa milli línanna ósætti um að hann yfirgefi félagið með þessi eftirlaun sem hann neitar að lækka,“ segir hún.
Hvorki hefur náðst í Karlsen né Schram í morgun vegna málsins, skrifar NRK.