Gefa 28 daga frest fyrir búsetu í Bretlandi

ANDY RAIN

Innflytjendaeftirlit í Bretlandi mun nú veita ríkisborgurum aðildarríkja Evrópusambandsins sem búsettir eru í Bretlandi 28 daga viðvörun til þess að sækja um áframhaldandi búsetu. Þó mun innanríkisráðuneytið veita fólki óákveðinn tímaramma til þess að ljúka umsókn um áframhaldandi búsetu, hafi það afsökun fyrir þörf á slíkri töf.

Vika er í að umsóknarfresturinn renni út en um 5,6 milljónir ríkisborgara Evrópska efnahagssvæðisins hafa sótt um fasta stöðu. Þá eru um 400.000 mál útistandandi og hjálparsími ríkisstjórnarinnar tekur við þúsundum símtala á dag.

Þetta kemur fram í frétt BBC í dag.

Eftir Brexit-þjóðaratkvæðagreiðsluna árið 2016, sem fór fram fyrir nákvæmlega fimm árum, var tekin upp staða fyrir þegna ESB og EES sem búsettir eru í Bretlandi sem gerir þeim kleift að halda sama búsetu- og atvinnurétti, aðgangi að heilbrigðisþjónustu og hlunnindum.

Innflytjendaráðherra Bretlands, Kevin Foster, segir að „þeir sem ekki hafa lokið við umsóknarfrestinn í næstu viku myndu ekki tapa því að réttur þeirra sé verndaður í lögum“. Hann bætir við að embættismenn í innflytjendamálum myndu byrja að gefa út 28 daga tilkynningar til fólks og ráðleggja því að sækja um fasta stöðu.

Þá hafa hópar innflytjenda í Bretlandi lýst áhyggjum sínum af því að börn yrðu meðal þeirra sem ekki hefðu sótt um, en Foster sagði að það yrði tímarammi þar sem fólki sem ekki sótti um yrði heimilt að gera það, hefði það eðlilegar forsendur til þess. Hann tekur einnig dæmi um nemendur sem gætu lent í því að uppgötva að þeir hefðu ekki fasta búsetu í Bretlandi þegar sótt væri um háskólanám.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert