Um hundrað manns saknað í Flórída

Ekki er vitað hve margir voru inni í byggingunni er …
Ekki er vitað hve margir voru inni í byggingunni er hún hrundi. AFP

Lögreglan í Miami hefur gefið út að hátt í 100 manns sé enn saknað og einn íbúi látinn eftir að tólf hæða íbúðarhús hrundi að hluta í strand­bæn­um Surfsi­de í Miami í Flórída í nótt.

Talið er að fjöldi fólks sé enn fastur í rústum Champlain-turnanna og óttast lögregla að tala látinna muni hækka töluvert. Björgunarmenn hafa nú þegar náð tugum fólks úr rústunum og munu koma til með að halda björgunaraðgerðum áfram er þeir leita að fólkinu sem enn er saknað.

Framkvæmdir hafi staðið yfir

Ekki er vitað hve margir voru inni í bygginguni er hún hrundi, eða hver orsök hamfaranna sé. Að sögn Charles Burkett, bæjarstjóra í Surfside, hefur lögreglan notast við leitarhunda til að leita að þeim sem enn er saknað en það hefur engan árangur borið.

Hann segir hrun byggingarinnar líta út eins og sprenging hafi átt sér stað, en það sé nokkuð öruggt að svo sé ekki, önnur ástæða hljóti að vera fyrir þessum hræðilega atburði. 

Framkvæmdir eru sagðar hafa staðið yfir á þaki hússins en Burkett segist ekki sjá hvernig þær hefðu getað átt þátt í að blokkin hrundi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert