Helltu sér yfir forsætisráðherra Ungverjalands

Leiðtogar aðildarríkja ESB á leiðtogafundi í dag.
Leiðtogar aðildarríkja ESB á leiðtogafundi í dag. AFP

„Þú ert kominn yfir línuna. Að þessu sinni er þetta of mikið,“ sagði Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, við Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, á leiðtogafundi Evrópusambandsins í dag. 

„Fyrir mér á Ungverjaland engan stað í ESB,“ bætti Rutte við.

AFP-fréttastofan hefur eftir embættismanni sambandsins sem var á staðnum að leiðtogar ríkjanna hafi hellt sér yfir Orban vegna nýrra laga í Ungverjalandi sem banna allt LGBT-efni í skólum og í sjónvarpsefni ætluðu börnum.

Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, á leiðtogafundi Evrópusambandsins í dag.
Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands, á leiðtogafundi Evrópusambandsins í dag. AFP

„Það er ekki þannig sem lífið virkar“

Aðrir leiðtogar tóku einnig til máls og gagnrýndu Orban harðlega, sem hefur áður fengið yfir sig gagnrýni vegna íhalddsamrar stefnu sinnar.

„Ég skal segja þér það Viktor að sænsku þjóðinni þykir lítið til komið að vera að senda peninga til lands sem hagar sér svona,“ sagði Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, á fundinum. 

„Ég vaknaði ekki einn morguninn eftir að hafa séð auglýsingu í sjónvarpinu fyrir eitthvert vörumerki og sagðist vera samkynhneigður,“ sagði Xavier Bettel, forsætisráðherra Lúxemborgar. „Það er ekki þannig sem lífið virkar,“ bætti hann við.

Gagnrýnin á forsætisráðherrann setti mark sitt á fyrsta dag þessarar tveggja daga ráðstefnu leiðtoga ríkjanna en ætlunin hafði verið að ræða óþarfa tengsl sambandsins við Rússland og Tyrkland og einnig meðhöndlun sambandsins á heimsfaraldrinum.

„Það er ekki þannig sem lífið virkar,“ sagði Xavier Bettel, …
„Það er ekki þannig sem lífið virkar,“ sagði Xavier Bettel, forsætisráðherra Lúxemborgar. AFP

Telur leiðtogana hafa misskilið nýju lögin

Þegar Orban mætti á fundinn þótti hann vera einkennilega ögrandi og fullyrti að leiðtogar ríkjanna hefðu misskilið löggjöfina. „Þetta eru ekki lög á móti samkynhneigð, þetta snýst um rétt barnanna og foreldranna,“ sagði hann.

Sautján af 27 þjóðum Evrópusambandsins undirrituðu yfirlýsingu í vikunni þar sem ríkin komu fram „þungum áhyggjum“ sínum vegna ungversku laganna.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur gefið út að hún muni mótmæla grundvelli laganna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka