Hvetja fullbólusetta til grímunotkunar

WHO hvetur fullbólusetta til þess að halda áfram að stunda …
WHO hvetur fullbólusetta til þess að halda áfram að stunda sóttvarnir. AFP

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur hvatt fullbólusetta til þess að halda áfram að nota grímur og halda fjarlægð frá öðrum ásamt hefðbundnum sóttvarnaráðstöfunum til þess að koma í veg fyrir útbreiðslu Delta-afbrigðis Covid-19.

Frá þessu greinir á vef CNBC.

„Fólk má ekki byrja að upplifa sig öruggt bara um leið og það hefur fengið tvo skammta af bóluefni. Það þarf enn þá að stunda sóttvarnir,“ sagði Mariangela Simao, aðstoðarframkvæmdastjóri lyfja- og heilsuvörusviðs WHO á blaðamannafundi í höfuðstöðvum stofnunarinnar í Genf.

„Bólusetning ein og sér mun ekki koma í veg fyrir samfélagssmit. Fólk verður að halda áfram að nota grímur, vera í loftræstum rýmum, þvo sér um hendurnar og forðast hópamyndun. Þetta er enn þá mjög mikilvægt þegar það er samfélagssmit í gangi, þó svo fólk sé bólusett,“ bætti hún við.

Tilmælin koma í ljósi þess að fjöldi landa hefur aflétt takmörkunum vegna faraldursins en stofnunin biðlar til fullbólusettra að halda áfram að stunda sóttvarnir á meðan Delta-afbrigðið, sem hefur þegar greinst í yfir 92 löndum, heldur áfram að breiðast út.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert