Bandarískir dómstólar féllust í dag á að gera lyfjafyrirtækinu Johnson & Johnson að greiða New York-ríki 230 milljónir dollara, eða sem nemur rúmum 28 milljörðum króna, í dómsátt, gegn því að fyrirtækið yfirgefi ópíóðamarkaðinn í Bandaríkjunum. New York Times greinir frá.
Yfir 3.000 dómsmál hafa verið höfðuð gegn ópíóðaframleiðendum fyrir að hafa stuðlað að ópíóðafaraldri með ávísunum lyfsseðilsskyldra lyfja, sem hafa verið banamein yfir 800.000 Bandaríkjamanna síðustu tuttugu árin.
Johnson & Johnson átti að taka til varnar í réttarhöldum þar sem lyfjafyrirtæki, dreifingaraðilar og apótek sem afgreiddu lyfin taka til varnar vegna faraldursins í fyrsta skipti, og í fyrsta skipti sem kviðdómur verður kallaður saman í slíku máli.
„Ópíóðafaraldurinn hefur valdið ómældum skaða í New York-ríki og í öllum Bandaríkjunum, milljónir manna eru enn háðir hættulegum ópíóðalyfjum,“ sagði í tilkynningu Letitia James ríkissaksóknara vegna málsins.
„Johnson & Johnson átti sinn þátt í að ýta undir faraldurinn en í dag eru þeir staðráðnir í að yfirgefa ópíóðaiðnaðinn – ekki bara í New York heldur í öllum Bandaríkjunum,“ sagði þar að lokum.