Trúfélagið Brunstad Christian Church (BCC) í Noregi, sem reyndar gengur einnig undir heitinu Vinir Smiths, eða Smiths venner á norsku, hótar málshöfðun á hendur norska ríkisútvarpinu NRK og þremur fréttamönnum þess í kjölfar umfjöllunar rannsóknarfréttaþáttarins Brennpunkt um félagið í fyrsta þætti sínum af þremur í heimildaþáttaröðinni Guðs útvöldu, eða Guds utvalde þar sem flett er ofan af þeim raunveruleika sem söfnuðir þriggja norskra trúfélaga búa við.
Saga BCC í Noregi nær aftur til ársins 1898 þegar Johan Oscar Smith sjóliðsforingi varð fyrir trúarlegri opinberun um borð í norska herskipinu Thor og tók í framhaldinu að boða kristna trú. Hann stofnaði söfnuð í félagi við bróður sinn, Aksel Smith tannlækni, og Elias Aslaksen, mann sem einnig tengdist norska sjóhernum, þó með öðrum hætti en Smith.
Aslaksen þessi var afburðanemandi í norska sjóhernaðarskólanum, Sjøkrigsskolen, og útskrifaðist þaðan með slíku láði að annar eins námsárangur hafði aldrei sést í sögu skólans sem nær aftur til ársins 1652. Aslaksen gegndi hins vegar aldrei eiginlegri herþjónustu heldur sagði sig frá hermennsku þegar eftir útskrift og gerðist sálmaskáld og prédikari við hlið Johan Smith í söfnuði þeirra, sem í byrjun hét einfaldlega Kristilegi söfnuðurinn, Den Kristelige Menighet, en varð síðar að Brunstad Christan Church auk þess að hafa alla tíð gegnt hliðarnafninu Vinir Smiths.
BCC boðar íhaldssama kristna trú. Jesús hafi fæðst sem venjuleg manneskja og hafi þá haft sömu stöðu og Adam eftir syndafallið, verið breyskur sem aðrir menn. Þrátt fyrir það hafi hann aldrei drýgt synd og vísar BCC þar til Fyrra almenna bréfs Péturs 2:22, „Hann drýgði ekki synd, og svik voru ekki fundin í munni hans.“ Í stuttu máli býður BCC sóknarbörnum sínum að fylgja því fordæmi, drýgja aldrei synd og verða þannig hólpin á efsta degi.
Umfjöllun NRK í Brennpunkt snerist hins vegar lítið um syndlaust líf og uppskeruna að því loknu. Hún fjallaði hins vegar um rúmar 600 milljónir norskra króna, jafnvirði tæpra níu milljarða íslenskra króna, sem hurfu sporlaust úr bankastofnun sem trúfélagið norska hafði stofnað á Kýpur og gekk undir nafninu BCC Financial þar til fyrirtækið var lagt niður.
Í BCC í Noregi eru tæplega 9.000 félagar, en trúfélagið starfar þó mun víðar, það teygir anga sína til rúmlega 50 landa og tekur við félagsgjöldum hvaðanæva. Félagsgjöld þessi voru einmitt ástæða þess að fjórir uppljóstrarar, allir sóknarbörn í BCC, lögðu sín lóð á vogarskálar Brennpunkt sem í kjölfarið tók að kanna fjárhagsmálefni trúfélagsins.
Deildu uppljóstararnir, sem koma hver frá sínum söfnuði félagsins í Noregi, þeim áhyggjum sínum með NRK, að þau gjöld sem BCC færi fram á af fylgjendum sínum færu langt með að ríða heilu fjölskyldunum á slig.
Gerir trúfélagið þá kröfu að félagar greiði eins konar tíund til félagsins frá því er þeir ná 18 ára aldri. Ætlast er til að fjölskylda reiði fram 4.500 krónur mánaðarlega, jafnvirði tæplega 65.000 íslenskra króna, einhleypir frá 23 ára aldri skulu leggja fram helming þeirrar upphæðar, en öryrkjar og eftirlaunaþegar 1.000 krónur, rúmlega 14.000 íslenskar.
Lagði einn uppljóstraranna fram bréf frá aðalfundi BCC í febrúar, kröfum þessum til jarteikna, og sagðist vita til þess að mörg sóknarbarnanna berðust í bökkum við að greiða til félags síns. Ávallt sé þó vísað til greiðslnanna sem „frjálsra framlaga“ en sú sé þó alls ekki raunin, ríkulega sé gengið eftir þeim og skuldseigum hótað „félagslegum þvingunum“ sem geti falist í útskúfun en að sögn uppljóstrarans frá stærsta söfnuðinum, í Sandefjord, eiga sumir sér ekki annað félagslegt öryggisnet en trúfélagið.
Kveður uppljóstrarinn bilið býsna breitt milli raunveruleikans og þess hvernig stjórnendur BCC kynna félagið út á við. „Munurinn er svo mikill að það er freistandi að segja að þeir kríti býsna liðugt og komi sér þannig undan öllum gagnrýnisröddum,“ segir hann.
„Við hefðum kannski getað orðað þetta betur,“ segir Even Winther Nilsen, stjórnarformaður BCC í Suður-Noregi, þegar NRK ber bréfið frá fundinum undir hann.
„Fjárhagsáætlunin og umræður um hana á aðalfundinum lúta í raun sömu lögmálum og hjá fyrirtækjum. Félagarnir ákveða í hvaða framkvæmdir verður ráðist og meta tekjuþörfina. Við setjum fram áætlaða tölu fyrir einstaklinga eða fjölskyldu. Þetta er ráðstöfun til að tryggja að reksturinn sé í föstum skorðum,“ segir Nilsen enn fremur.
Fjármunina á, að hans sögn, að nota til að reka sunnudagaskóla, halda fundi, þemadaga og standa undir barna- og ungmennastarfi félagsins. Um þriðjungur fjárins fari þá í alþjóðlegt trúboð gegnum sjónvarpsstöð trúfélagsins.
NRK gerir athugasemd við afgreiðslu fjárhagsáætlunarinnar. Félagar BCC í Suður-Noregi séu um 400. Þar af sé aðeins helmingurinn orðinn 18 ára en við þann aldur miðast atkvæðisréttur á aðalfundi. Innan við fjórðungur atkvæðisbærra hafi setið fundinn og hafi atkvæði um fjárhagsáætlunina fallið þannig, að 33 voru samþykkir, sjö voru hlutlausir og tveir greiddu atkvæði gegn áætluninni.
Annar uppljóstrari Brennpunkt ólst upp í trúfélaginu og gerði nægjusemi að sínu markmiði í lífinu. Sá telur miklar breytingar hafa orðið innan BCC síðan á tíunda áratug síðustu aldar.
„Gildismatið er annað nú orðið. Ég upplifi lokað samfélag sem lifir á forsendum stjórnendanna. Við höfum okkar eigin talsmáta sem er í raun eins og fagmál. Viðskipti verða æ ríkari þáttur og hópur útvalinna hefur myndast sem trónir á toppnum,“ segir viðmælandinn og sá þriðji samsinnir honum: „Þegar Kåre Smith [núverandi leiðtogi BCC og barnabarn stofnandans] sagði „you can’t save the world if you are broke“ upplifði ég að BCC hvarf frá því að vera samtök hugsjónafólks yfir í að vera rekið eins og fyrirtæki.“
Trond Eivind Johnsen á sæti í stjórn BCC og hefur orð fyrir trúfélaginu við NRK. Hann segir BCC ekkert eiga undir því að ljúga eða fegra sannleikann. „Við vísum því alfarið á bug að BCC stefni félögum sínum í fjárhagslega blindgötu með þrýstingi um framlög,“ segir Johnsen í skriflegu svari til norska ríkisútvarpsins. Þá hafi stjórnendum félagsins ekkert borist til eyrna um að skjólstæðingarnir eigi í vök að verjast peningalega vegna framlaga sinna til félagsins. Árlegar kannanir séu lagðar fyrir söfnuðinn auk þess sem félagið hafi tekið í notkun sérstakt ábendingakerfi um allt sem betur megi fara að mati fólksins.
NRK er þó kunnugt um, af erindi bréfsins af aðalfundinum, að framlög í beinhörðum peningum séu langt í frá það eina sem ætlast er til að félagar Brunstad Christian Church reiði fram. Einnig er gerð krafa um vinnuframlag, án endurgjalds, svo sem við glæsilega ráðstefnuhöll trúfélagsins, Kalvild Gård í Lillesand, sem býður veisluþjónustu, jólahlaðborð, aðstöðu fyrir ráðstefnur og fundi með veitingum og í raun aðstöðu fyrir hvaða mannfagnaði sem vera skyldi.
Er vinnuframlagi sóknarbarnanna við ráðstefnuhöllina og víðar ætlað að greina niður lán sem hvílir á húsinu og nú stendur í um 40 milljónum norskra króna, jafnvirði 580 milljóna íslenskra.
Fjárhagsmálefni BCC eru þó hvort tveggja víðfeðmari og flóknari en skuldin á Kalvild Gård gefur til kynna. Árið 2005 stofnaði BCC sína eigin bankastofnun á Kýpur, einni helstu skattaparadís Evrópu, og gaf henni nafnið BCC Financial. Tilgangur þess fyrirtækis var fyrst og fremst stýring lausafjár innan þeirrar samstæðu sem félög BCC um allan heim mynda, það sem á fagmáli kallast cash pooling og krefst í Noregi samþykkis fjármálaeftirlits. Kýpversk fjármálayfirvöld eru öllu rólegri í tíðinni.
Með tilkomu BCC Financial varð dótturfélögum trúfélagsins í rúmlega 50 þjóðríkjum kleift að leggja sóknargjöld sín þangað sem innlán. Banki norska trúfélagsins veitti svo þurfandi félögum innan BCC lán til að standa undir sunnudagaskólum, trúboði og æskulýðsstarfi auk þess að lána ótengdum fyrirtækjum og einstaklingum um allan heim fé. Meðal þeirra sem fengu margra milljóna króna lán frá BCC Financial voru fyrirtæki í eigu Kåre Smith, andlegs leiðtoga BCC í Noregi, og Bernt Aksel Larsen, fyrrverandi stjórnarmanns í BCC.
Söfnuðurinn í Suður-Noregi, BCC Sørlandet, lagði til að mynda 19 milljónir, samsvarandi 276 milljónum íslenskra króna, inn í bankann á Kýpur sem þremur dögum síðar veitti söfnuðinum lán upp á nákvæmlega sömu uppphæð til að standa undir byggingu nýrrar ráðstefnuhallar í Vestfold og „verkefnum í þágu kristni og mannúðar“.
Árabilið 2015 – '16 var BCC Financial-bankinn skyndilega lagður niður. Við brotthvarfið áttu félög BCC í Noregi og víðar alls 611 milljónir norskra króna, tæpa 8,9 milljarða íslenskra, í innlánum í bankanum sem hafði hins vegar lánað allt féð út til lántakenda á borð við fyrirtæki Kåre Smith sem áður eru nefnd.
Upphaflegu innlánin voru að meginuppistöðu hin svokölluðu „frjálsu framlög“ sem mörg þúsund sóknarbörnum í Noregi og víðar um heim var gert að greiða til síns trúfélags að viðlagðri félagslegri útskúfun úr samfélagi kristinna.
„Hvað varð um þessar 611 milljónir króna í innlánum á Kýpur?“ spyrja aðstandendur Brennpunkt-þáttarins nú. Sé aðeins litið til milljónanna 19, sem BCC í Suður-Noregi lagði inn í bankann, skiluðu þeir fjármunir sér aftur til Noregs þegar bankinn var lagður niður?
„Peningarnir hafa ekki skilað sér sem greiðsla inn á okkar reikninga, en eru færðir sem inneign [n. tilgodehavende] hjá BCC í staðinn fyrir BCC Financial,“ svarar áðurnefndur stjórnarformaður, Even Winther Nilsen, í tölvupósti til NRK. Svarið er þar með nei, innlánin komu aldrei til baka.
Fjöldi sams konar inneignarfærslna átti sér stað þegar BCC Financial hvarf af sjónarsviðinu. NRK hefur haft samband við 17 af 19 söfnuðum BCC í Noregi og hafa 13 þeirra staðfest að innlán þeirra hafi verið skráð sem inneign þegar bankinn var lagður niður. Þó ekki í þeirra bókhaldi heldur hjá aðalfélaginu í Noregi, BCC Sørlandet, sem samtals yfirtók 66 innlánasamninga bankans.
Þannig stóð bókhald BCC Financial á núlli þegar fyrirtækið var gert upp árið 2016, að frátöldu einu minni háttar láni sem bankinn afskrifaði. Hin lánin voru aldrei greidd til baka, nema á pappírum.
Einn uppljóstrara NRK segist hafa fengið þær skýringar frá sinni safnaðarstjórn að öll útistandandi lán bankans á Kýpur hafi verið greidd til baka í beinhörðum peningum áður en bankanum var lokað.
„Þessar upplýsingar [sem nú hafa komið fram] gera það að verkum að stjórnin glatar öllu mínu trausti. Það sem stjórnin segir núna stangast algjörlega á við það sem áður var sagt og hvort tveggja getur ekki verið satt samtímis. Stjórnin velur sér hluta af atburðarásinni og býr til skýringar. Hún sleppir þeim hlutum sem hefðu sýnt heildarmyndina,“ segir uppljóstrarinn.
NRK biður stjórn BCC því næst að svara framangreindum áburði. En nú er það ekki lengur stjórnarformaðurinn sem svarar. Næsta svar berst frá Carl Bore, lögmanni trúfélagsins, og er þetta hluti þess: „Þú leggur á ráðin um að birta alvarlegar og rangar ásakanir um lygar af hálfu BCC. Ósannar ásakanir um lygar geta haft bótaskyldu í för með sér fyrir fjölmiðilinn og blaðamanninn.“
Heldur Bore því fram að endurskoðandi BCC hafi farið yfir og samþykkt allt uppgjörið við bankann á Kýpur sem að öllu leyti hafi verið lögum samkvæmt og sent með ársreikningum félagsins til Skráningarstofnunarinnar í Brønnøysund sem heldur utan um flestar opinberar skrár landsins auk skattskila.
Fjórði uppljóstrari NRK og Brennpunkt úr söfnuði BCC er kona sem hefur verið í félaginu alla sína ævi, fæddist inn í það ef svo má segja. Henni þykir ákaflega vænt um trúfélag sitt, en er uggandi um stöðu mála í dag og segir leyndina yfir rekstri og fjárhagsmálefnum BCC ískyggilega.
„Margir félaganna eru fáfróðir og barnalegir. Þeir treysta stjórninni í blindni sem gerir henni kleift að færa sér gjafmildi þeirra og vinnusemi í nyt,“ segir hún og annar uppljóstraranna fjögurra samsinnir henni: „Þegar við sem félagar sjáum ekki aðra úrkosti en að leita til blaðamanna með það sem við höfum að segja er það vegna þess að við óttumst þær persónulegu og félagslegu afleiðingar sem það hefur í för með sér að krefjast upplýsinga um lán og endurgreiðslur.
Viðbrögð trúfélagsins við þessum fullyrðingum berast sem nýr tölvupóstur frá Bore lögmanni sem ítrekar aðvaranir sínar og kveður birtingu uppspunninna ásakana leiða til málaferla gegn ríkisútvarpinu. Lýkur hann máli sínu með eftirfarandi fullyrðingu og í þeim sporum stendur ráðgátan um mörg hundruð milljónir norskra króna af framlögum sóknarbarna BCC-kirkjunnar sem gufuðu upp á Kýpur:
„Félagar eiga þess alla möguleika að hafa samband við BCC gegnum þær leiðir sem til þess eru gerðar og engum er refsað fyrir að spyrja spurninga.“