Hver var John McAfee?

Tölvuveiruvarnafrumkvöðullinn John McAfee.
Tölvuveiruvarnafrumkvöðullinn John McAfee. AFP

Bandaríski tölvuveiruvarnafrumkvöðullinn John McAfee fannst látinn í fangaklefa sínum í Barselóna á Spáni fyrr í vikunni og segir dómsmálaráðuneyti Spánar að allt bendi til þess að hann hafi svipt sig lífi. 

McAfee er einna þekktastur fyrir að hafa stofnað vírusvarnarfyrirtæki, sem nefnt er í höfuðið á honum sjálfum. Sjálfur sagði hann það hafa verið tilviljun eina að hann hafi fundið leið til að finna tölvuvírusa og verjast gegn þeim en kerfið mátti finna í nánast hverri tölvu fáeinum mánuðum eftir að McAfee bjó það til á níunda áratugnum.

Fyrirtækið fór á markað árið 1994 og var McAfee sjálfur látinn fara með 100 milljónir dala í kveðjuskyni. Hann fór þá að stunda annars konar viðskipti og stofnaði m.a. jógasetur í Colorado. Þar á ýmislegt misjafnt að hafa farið fram, m.a. af kynferðislegum toga.

Sakaður um að hafa myrt nágranna sinn

Árið 2008 flutti McAfee til Belís og fimm árum síðar fannst nágranni hans myrtur. McAfee var bendlaður við morðið eftir að hann ásakaði nágrannann um að eitra fyrir hundunum hans. Á þeim tíma bjó McAfee með 17 ára stúlku og fann lögregla fjölda vopna á heimili hans.

McAfee var mikill glaumgosi.
McAfee var mikill glaumgosi. AFP

McAfee lagði þá á flótta en var handsamaður í Guatemala en svo aftur sleppt lausum. Ásakanir um morðið héngu alltaf yfir höfði hans þótt hann neitaði sök í málinu.

Aftur á flótta

Árið 2019 var McAfee sakaður um umfangsmikil skattsvik af bandarískum yfirvöldum en hann skilaði ekki skattskýrslum í fjögur ár þrátt fyrir að hann hefði þénað milljónir dollara vegna ráðgjafarstarfa, ræðuhalda, fjárfestinga í rafmyntum og sölu á réttindum á ævisögu sinni.

Lagði hann þá aftur á flótta og hélt þá um tíma til á Dalvík. Spænsk yfirvöld handtóku McAfee í október en hann hafði þá einnig verið kærður fyrir svik með rafmyntir í Bandaríkjunum. Lát McAfee kom í kjölfar þess að spænskir dómstólar úrskurðuðu að hann skyldi framseldur til Bandaríkjanna.

Lögreglustöðin í Barselóna þar sem McAfee lést.
Lögreglustöðin í Barselóna þar sem McAfee lést. AFP

Frétt á vef BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert