Rannsókn stendur yfir hjá breskum yfirvöldum á því hvernig leynileg skjöl um varnarmál, þar sem meðal annars mátti lesa um ferðir HMS Defender, skips breska sjóhersins, nærri Krímskaga sem leiddi til þess Rússar skutu viðvörunarskotum að skipinu, mátti finna á bekk í strætóstoppistöð á Englandi.
Varnarmálaráðuneytið lýsti því yfir í dag að starfsmaður hafi greint frá því að skjölin hefðu týnst í síðustu viku og rannsókn á málinu hefði staðið yfir síðan þá.
Nafnlausar heimildir BBC herma að 50 blaðsíður af leynilegum skjölum hafi fundist á bak við strætóstoppistöð í Kent á sunnanverðu Englandi á fimmtudaginn.
Möguleg viðbrögð rússneskra heryfirvalda við ferðum HMS Defender um úkraínsk höf voru kortlögð í skjölunum, er meðal þess sem fram kemur í umfjöllun BBC.
Rússneska varnarmálaráðuneytið lýsti yfir á miðvikudaginn að rússneskt varðskip hefði skotið viðvörunarskotum að HMS Defender og orrustuþota varpað fjórum sprengjum í veg fyrir skipið.
Varnarmálaráðuneyti Bretlands neitar hins vegar að skotið hafi verið á skipið og segir það hafa verið í lögsögu Úkraínu.