Leynileg herskjöl fundust á strætóstoppi

HMS Defender, herskip breska sjóhersins.
HMS Defender, herskip breska sjóhersins. AFP

Rannsókn stendur yfir hjá breskum yfirvöldum á því hvernig leynileg skjöl um varnarmál, þar sem meðal annars mátti lesa um ferðir HMS Def­end­er, skips breska sjó­hers­ins, nærri Krímskaga sem leiddi til þess Rússar skutu viðvörunarskotum að skipinu, mátti finna á bekk í strætóstoppistöð á Englandi.

Varnarmálaráðuneytið lýsti því yfir í dag að starfsmaður hafi greint frá því að skjölin hefðu týnst í síðustu viku og rannsókn á málinu hefði staðið yfir síðan þá.

Nafnlausar heimildir BBC herma að 50 blaðsíður af leynilegum skjölum hafi fundist á bak við strætóstoppistöð í Kent á sunnanverðu Englandi á fimmtudaginn. 

Möguleg viðbrögð rússneskra heryfirvalda við ferðum HMS Defender um úkraínsk höf voru kortlögð í skjölunum, er meðal þess sem fram kemur í umfjöllun BBC. 

Rúss­neska varn­ar­málaráðuneytið lýsti yfir á miðvikudaginn að rúss­neskt varðskip hefði skotið viðvör­un­ar­skot­um að HMS Def­end­er og orr­ustuþota varpað fjór­um sprengj­um í veg fyr­ir skipið. 

Varn­ar­málaráðuneyti Bret­lands neit­ar hins veg­ar að skotið hafi verið á skipið og seg­ir það hafa verið í lög­sögu Úkraínu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert