Snowden lýsir yfir dauða málsins gegn Assange

Bandaríski uppljóstrarinn Edward Snowden.
Bandaríski uppljóstrarinn Edward Snowden. AFP

Bandaríski uppljóstrarinn Edward Snowen segir umfjöllun Stundarinnar um Sigurð Inga Þórðarson, þekktan sem Sigga hakkara, vera endalok máls bandarískra yfirvalda á hendur Julian Assange, ritstjóra og stofnanda Wikileaks. 

Þessu lýsti Snowden yfir á Twitter-síðu sinni í gær.

Boðin friðhelgi gegn vitnisburði

Fram kemur í umfjöllun Stundarinnar að Siggi hakkari, sem hefur borið vitni í máli bandarískra yfirvalda gegn Assange, játi að hafa logið um aðalatriði ásakananna. Sigurði, sem játað hefur að hafa framið fjölda glæpa á borð við skjalfals, fjársvik og barnaníð, á samkvæmt umfjöllun Stundarinnar að hafa verið heitið friðhelgi gegn ákæru í stað vitnisburðar gegn Assange. 

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur farið fram á framsal á Assange sem er í haldi í  Bretlandi að beiðni bandarískra stjórnvalda. Hann hafði áður dvalið í sendi­ráði Ekvador í Lund­ún­um frá 2012 og naut þar vernd­ar.

Assange bíður átekta

Í Banda­ríkj­un­um stend­ur til að rétta yfir Assange vegna meintra njósna og inn­brota í tölvu­kerfi banda­ríska hers­ins, en hundruðum þúsunda blaðsíðna af gögn­um banda­ríska hers­ins og annarra rík­is­stofn­ana var árið 2009 lekið á vef Wiki­leaks. Þar á meðal voru ýmis gögn um stríðsglæpi og mann­rétt­inda­brot Banda­ríkja­hers á er­lendri grundu.

Í upp­hafi árs ákvað dóm­ari í Bretlandi að fall­ast ekki á framsals­beiðni Banda­ríkja­stjórn­ar á þeim for­send­um vegna and­legr­ar heilsu hans. Sagði dóm­ar­inn að ef Assange yrði fram­seld­ur yrði hon­um lík­leg­ast haldið í ein­angr­un við óboðleg­ar aðstæður fyr­ir mann í hans ástandi. Banda­ríkja­stjórn hef­ur nú áfrýjað úr­sk­urðinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert