Bandaríski uppljóstrarinn Edward Snowen segir umfjöllun Stundarinnar um Sigurð Inga Þórðarson, þekktan sem Sigga hakkara, vera endalok máls bandarískra yfirvalda á hendur Julian Assange, ritstjóra og stofnanda Wikileaks.
Þessu lýsti Snowden yfir á Twitter-síðu sinni í gær.
Fram kemur í umfjöllun Stundarinnar að Siggi hakkari, sem hefur borið vitni í máli bandarískra yfirvalda gegn Assange, játi að hafa logið um aðalatriði ásakananna. Sigurði, sem játað hefur að hafa framið fjölda glæpa á borð við skjalfals, fjársvik og barnaníð, á samkvæmt umfjöllun Stundarinnar að hafa verið heitið friðhelgi gegn ákæru í stað vitnisburðar gegn Assange.
Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, hefur farið fram á framsal á Assange sem er í haldi í Bretlandi að beiðni bandarískra stjórnvalda. Hann hafði áður dvalið í sendiráði Ekvador í Lundúnum frá 2012 og naut þar verndar.
Í Bandaríkjunum stendur til að rétta yfir Assange vegna meintra njósna og innbrota í tölvukerfi bandaríska hersins, en hundruðum þúsunda blaðsíðna af gögnum bandaríska hersins og annarra ríkisstofnana var árið 2009 lekið á vef Wikileaks. Þar á meðal voru ýmis gögn um stríðsglæpi og mannréttindabrot Bandaríkjahers á erlendri grundu.
Í upphafi árs ákvað dómari í Bretlandi að fallast ekki á framsalsbeiðni Bandaríkjastjórnar á þeim forsendum vegna andlegrar heilsu hans. Sagði dómarinn að ef Assange yrði framseldur yrði honum líklegast haldið í einangrun við óboðlegar aðstæður fyrir mann í hans ástandi. Bandaríkjastjórn hefur nú áfrýjað úrskurðinum.