Tala látinna í Miami hækkar

Rúmir þrír sólarhringar eru frá því að 12 hæða íbúðahús …
Rúmir þrír sólarhringar eru frá því að 12 hæða íbúðahús hrundi að hluta í Surfside í Miami. Að minnsta kosti níu eru látnir og yfir 150 er enn saknað. AFP

Alls hafa níu fundist látnir í rústum annars Champlain-turnanna í strandbænum Surfside í Miami sem hrundi að hluta á fimmtudag. 

Búið er að bera kennsl á fjóra hinna látnu að sögn Daniellu Levine Cava, borg­ar­stjóra í Miami, en yfir 150 er enn saknað. „Okkar helsta forgangsmál er að leita áfram og bjarga hverju lífi sem við getum,“ segir Cava. 130 íbúðir voru í 12 hæða fjölbýlishúsinu sem hrundi að hluta. 

Á meðal hinna látnu er móðir drengs sem var bjargað úr rústunum. Á meðal þeirra sem saknað er eru ísraelskir og paragvæskir ríkisborgarar. 

Eyðileggingin er gríðarleg.
Eyðileggingin er gríðarleg. AFP

Orsök hrunsins liggur ekki fyrir en í skýrslu verkfræðinga sem kom út fyrir þremur árum var gerð grein fyrir steypu­skemmd­um und­ir sund­laug í bygg­ing­unni sök­um hönn­un­ar­galla þar sem ekki var gert ráð fyr­ir halla und­ir sund­laug­inni. Vatn úr sund­laug­inni hafði því safn­ast upp, sem mögu­lega olli skemmd­um á burðar­virki bygg­ing­ar­inn­ar.

Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur boðið Ron DeSantis, ríkisstjóra í Flórída, alla þá aðstoð sem ríkið óskar eftir. Þá sendir hann íbúum í Surfside, strandbænum þar sem turnarnir eru, samúðarkveðjur. 

Leit hefur nú staðið yfir í tæpa fjóra sólarhringa og eru stórar vinnuvélar á svæðinu auk þess sem drónar og leitarhundar eru notaðir við leitina. Eldur kom upp í rústunum í gær sem tafði björgunaraðgerðir um stund.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert