Alls hafa níu fundist látnir í rústum annars Champlain-turnanna í strandbænum Surfside í Miami sem hrundi að hluta á fimmtudag.
Búið er að bera kennsl á fjóra hinna látnu að sögn Daniellu Levine Cava, borgarstjóra í Miami, en yfir 150 er enn saknað. „Okkar helsta forgangsmál er að leita áfram og bjarga hverju lífi sem við getum,“ segir Cava. 130 íbúðir voru í 12 hæða fjölbýlishúsinu sem hrundi að hluta.
Á meðal hinna látnu er móðir drengs sem var bjargað úr rústunum. Á meðal þeirra sem saknað er eru ísraelskir og paragvæskir ríkisborgarar.
Orsök hrunsins liggur ekki fyrir en í skýrslu verkfræðinga sem kom út fyrir þremur árum var gerð grein fyrir steypuskemmdum undir sundlaug í byggingunni sökum hönnunargalla þar sem ekki var gert ráð fyrir halla undir sundlauginni. Vatn úr sundlauginni hafði því safnast upp, sem mögulega olli skemmdum á burðarvirki byggingarinnar.
Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur boðið Ron DeSantis, ríkisstjóra í Flórída, alla þá aðstoð sem ríkið óskar eftir. Þá sendir hann íbúum í Surfside, strandbænum þar sem turnarnir eru, samúðarkveðjur.
My heart is with the community of Surfside as they grieve their lost loved ones and wait anxiously as search and rescue efforts continue.
— President Biden (@POTUS) June 26, 2021
Yesterday I spoke with Gov. DeSantis to let him know that we are ready to provide assistance as needed by state and local officials.
Leit hefur nú staðið yfir í tæpa fjóra sólarhringa og eru stórar vinnuvélar á svæðinu auk þess sem drónar og leitarhundar eru notaðir við leitina. Eldur kom upp í rústunum í gær sem tafði björgunaraðgerðir um stund.