Birgir Hermannsson stjórnmálafræðingur segir líklegt að blásið verði til kosninga í Svíþjóð í september. Stefan Löfven, forsætisráðherra landsins, sagði af sér í morgun, eftir að hafa fengið vikulangan umhugsunarfrest í kjölfar þess að vantrauststillaga á hendur honum var samþykkt í sænska þinginu.
Í kjölfar afsagnar Löfvens stendur það upp á Andreas Norlén, forseta þingsins, að leiða stjórnarmyndunarviðræður og ber honum að gæta hlutleysis við það.
Síðan verður kosið um tillögur Norléns í þinginu og fáist ekki meirihluti fyrir þeim verður að ganga til þingkosninga að nýju. Það breytir hins vegar ekki því að sænsk stjórnskipan gerir ráð fyrir því að kosið sé á fjögurra ára fresti, hvað sem öðru líður, og því þyrfti að kjósa aftur á næsta ári.
Það eru ekki sérstaklega góðar fréttir, enda tók nokkra mánuði að sjóða saman fráfarandi ríkisstjórn, sem hékk saman á samstarfi hins rótgróna Sósíaldemókrataflokks og hins tiltölulega smáa Græningjaflokks. Sú ríkisstjórn stóð ekki styrkum fótum en Birgir, sem búið hefur í Svíþjóð og þekkir sænsk stjórnmál vel, segir að líklega sé ekki rík tilhneiging til þess að spóla lengi í hjólförum einhverrar stjórnarkreppu, þar sem þingkosningar fara hvort eð er fram að ári.
„Þetta var náttúrlega mjög sérstök ríkisstjórn sem lét af störfum í dag. En í henni sitja Sósíaldemókratar og Græningjar, eins konar umhverfisflokkur, þeir tveir eru með ráðherra en svo eru tveir aðrir flokkar í virku samstarfi um fjárlög og helstu mál,“ segir Birgir við mbl.is.
Þeir tveir flokkar eru miðjuflokkarnir tveir í sænskum stjórnmálum, Miðflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn. Samstarf allra þessara flokka var svo háð því að Vinstriflokkurinn yrði alveg skilinn útundan. En eins og Birgir útskýrir, þurftu stjórnarflokkarnir samt sem áður að reiða sig á atkvæði Vinstriflokksins á sænska þinginu, til þess að koma stefnumálum sínum til leiða.
Þess vegna hefur Vinstriflokkurinn nokkuð góða samningsstöðu og getur krafist þess að einhver mál hljóti ekki afgreiðslu. Sem er einmitt það sem gerðist: Vinstriflokkurinn sagðist verja ríkisstjórn Löfven með einu skilyrði, að tvö mál hlytu ekki afgreiðslu þingsins. Annað þeirra hlaut ekki þinglega meðferð, en hitt, mál sem tengdist markaðsleigu vegna nýbygginga, var lagt fyrir þingið (sennilega fyrir tilstilli hægriflokkanna á þinginu) – ansi smávægilegt og sértækt mál til þess að fella heila ríkisstjórn, en svo fór sem fór.
„Þá sagði Vinstriflokkurinn, sem ég held að menn hafi ekki búist við að hann stæði við, að hann myndi fella ríkisstjórnina og það gerðu hann. En til þess að geta borið upp vantrauststillögu þarf ákveðinn fjölda þingmanna, það getur ekki einn flokkur gert það ef hann er ekki með nógu marga þingmenn og Vinstriflokkurinn er of lítill til að gera það,“ segir Birgir og bætir við:
„Þannig að þótt Vinstriflokkurinn segðist ekki styðja ríkisstjórnina var ekki þar með sagt að vantraustið kæmi. Svo voru það á endanum Svíþjóðardemókratar [öfgahægriflokkur] sem bar upp vantrauststillöguna.“
Birgir útskýrir svo að blaðamenn og álitsgjafar í Svíþjóð segi að hægriflokkarnir þar í landi hafi ekki endilega viljað leggja fram vantrauststillögu, þar sem málið um leigu nýbygginga var mál sem þeir vildu að hlyti jákvæða afgreiðslu þingsins. Tilgátan er sú að hægrimenn hefðu frekar viljað hljóta brautargengi í næstu kosningum og fá þannig heilt fjögurra ára kjörtímabil, í stað þess að þurfa að freista þess í haust að hljóta kosningu aðeins í eitt ár.
„Þannig að málið sem veldur því að hægriflokkarnir leggja fram vantrauststillögu á hendur ríkisstjórn Sósíaldemókrata, er mál sem þeir eru sjálfir hlynntir,“ segir Birgir og hlær.
Þannig að nú er svo í pottinn búið að líklega verður kosið um nýja ríkisstjórn í haust og svo strax aftur á næsta ári. Birgir segir að erfitt sé að spá um hvert fylgi flokkanna sveiflast, líklega bæta Sósíaldemókratar við sig og Vinstriflokkurinn líka, enda eru þeir ráðandi flokkar í sænskri pólitík og ekki ólíklegt að kjósendur fylki sér að baki þeim, nú þegar erfiðar efnahagsaðstæður vofa yfir landinu.