Bandaríska flugfélagið United Airlines tilkynnti í dag stærstu innkaup á flugvélum í sögu félagsins. Bæði er um innkaup frá framleiðendunum Boeing og Airbus að ræða. Veðjað er á að ferðamannaiðnaðurinn fari á flug eftir heimsfaraldur Covid-19.
Fram kemur í tilkynningu UA að lagðar hafi verið inn pantanir upp á 270 nýjar flugvélar, 200 frá Boeing og 70 frá Airbus. Kaupin eru talin vera upp á um 35,5 milljarða bandaríkjadala sem samsvarar um 4.400 milljörðum króna. Íslensk fjárlög eru um þúsund milljarðar á eðlilegu ári.
Stjórnendur UA segja pöntunina tímamótaaðgerð og táknmynd mikils bata og góðra horfa í ferðamannaiðnaðinum vegna víðtækra bólusetninga við Covid-19.
Þrátt fyrir það er gert ráð fyrir miklu tapi félagsins á yfirstandandi ársfjórðungi. Sala á dýrari fargjöldum félagsins er enn um 60 prósent undir eðlilegri sölu og sala annarra fargjalda enn minni.
„Við erum enn ekki komin 100 prósent til baka,“ sagði Scott Kirby, forstjóri UA, á blaðamannafundi í dag þar sem hann fór yfir kaupin og útlitið fram undan.
Við tilkynninguna hækkuðu hlutabréf í UA um 0,6% upp í 52,81 bandaríkjadal á hlut en lækkaði síðar í dag. Hlutabréf í Boeing hækkuðu við tilkynninguna en lækkuðu í Airbus.