Sögðu íbúum að húsið sem hrundi væri öruggt

Leit að fólki í rústum fjölbýlishúss í Miami í Flórída í Bandaríkjunum sem hrundi til grunna í síðustu viku hélt áfram í nótt. Ellefu eru nú taldir af og er 150 manns enn saknað. Spurningar um það hvernig atvikið hafi getað átt sér stað urðu háværari en áður í gær, sérstaklega í ljósi þess að íbúar voru fullvissaðir um það árið 2018 að húsið væri öruggt.

Sérfræðingar skoða nú mögulega galla á byggingunni, íbúðaturni í hverfinu Surfside í grennd við strönd Miami. Byggingin hrundi á fimmtudagsmorgun, á meðan íbúar voru í fastasvefni 

Leitin mun halda áfram í dag en útlitið er slæmt og hafa fjölskyldur þeirra sem saknað er lýst yfir vaxandi örvæntingu. 

Eftirlifendur mögulega í tómarúmi

Andy Alvarez slökkviliðsstjóri sagði í samtali við ABC að „tómarúm innan byggingarinnar“ hafi fundist þar sem mögulega væri hægt að finna eftirlifendur, þótt engum hafi verið bjargað á síðustu klukkustundum. 

„Við höldum í þá von að við munum geta bjargað einhverjum,“ sagði Alvarez.

Viðgerðir áttu að hefjast á húsinu fljótlega en það var 40 ára gamalt. Verktaki sem heimsótti bygginguna einungis 36 klukkustundum fyrir hrunið sagði slökkviliðinu frá alvarlegum skemmdum sem hann sá í bílskúr í kjallara hússins.

Árið 2018 voru íbúar hússins fullvissaðir um öryggi þess, að sögn Susönu Alvarez, íbúa í húsinu. „Enginn sagði okkur nokkurn tímann að húsið væri í svona slæmu ástandi,“ sagði hún í samtali við NBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert