Stolið verk Picasso í leitirnar eftir 9 ár

Verk Picasso til vinstri og Mondrain til hægri.
Verk Picasso til vinstri og Mondrain til hægri. Samsett mynd/BBC

Lögregluyfirvöld í Grikklandi fundu í gær málverk eftir Pablo Picasso, sem stolið var úr ríkislistasafninu í Aþenu, höfuðborg landsins, árið 2012. Einn hefur verið handtekinn grunaður um verknaðinn.

Pablo Picasso gaf grísku þjóðinni umrætt listaverk, Höfuð af konu, árið 1949 og fannst verkið í úthverfum Keretea, um 45 kílómetra suðaustur af Aþenu.

Höktandi vindmylla, Piets Mondrain, fannst einnig í aðgerðum lögreglu, en því verki var stolið samhliða verki Picasso fyrir níu árum.

Spænski stórmeistarinn Picasso gaf grísku þjóðinni verkið til minningar um andspyrnu hennar gegn þriðja ríki nasismans á fyrri hluta 20. aldar.

Aftan á verkinu stendur á frönsku: „Handa grísku þjóðinni, minnisvarði eftir Picasso.“

Öryggisráðstöfunum var ábótavant

Tveir menn eru taldir hafa brotist inn í ríkislistasafnið í Aþenu árið 2012 og stolið verkunum með því að skera þau úr römmum sínum. Það tók þá aðeins nokkrar mínútur að láta greipar sópa.

Ásamt verkum Picasso og Mondrain stálu þeir teikningu ítalska meistarans Guglielmo Gaccia, betur þekktur sem Moncalvo.

Í úttekt hins opinbera eftir þjófnaðinn kom í ljós að öryggiskerfi ríkislistasafnsins hafði ekki verið uppfært síðan árið 2000. Margir sýningarsalir safnsins voru ekki vaktaðir með öryggismyndavélum og viðvörunarkerfi voru gjarnan biluð og áttu það til að hringja að tilefnislausu svo fáir tóku mark á þeim.

Mennirnir tveir nýttu sér þetta, hringdu viðvörunarkerfi safnsins viljandi og villtu þannig um fyrir safnvörðum.

Eini safnvörðurinn sem var á vakt þetta kvöld sagði við skýrslutöku eftir þjófnaðinn, að hann hefði hlaupið á eftir mönnunum og þeir hefðu misst annað málverk Mondrains í gólfið en hlaupið á brott með hin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert