Andreas Norlén, forseti sænska þingsins, greindi frá því í dag að hann hafi óskað eftir að Ulf Hjalmar Kristersson, leiðtogi stjórnarandstöðunnar og formaður hægriflokksins Moderata samlingspartiet, kanni hvort að hann geti myndað og leitt nýjan meirihluta á þingi.
Gangi það eftir verður Ulf að öllum líkindum næsti forsætisráðherra Svíþjóðar og tekur við af Stefan Löfven sem sagði nýlega af sér eftir að meirihluti þingsins lýsti yfir vantrausti á hann.
Norlén hefur ekki veitt Ulf formlegt stjórnarmyndunarumboð en gaf honum þrjá daga til að þreifa fyrir sér varðandi möguleika um samstarf.
„Hann er leiðtogi stærsta flokksins af þeim sem tóku þátt í að fella sitjandi forsætisráðherra, Stefan Löfven [...] það er ábyrgt að leyfa honum að kanna möguleika sína,“ sagði Norlén á blaðamannafundi eftir fund sinn með formönnum flokkanna á Riksdagen.