Varað var við því í apríl að miklar skemmdir væru á íbúðablokkinni sem hrundi í bænum Surfside í Flórída-ríki í síðustu viku.
Í frétt BBC kemur fram að formaður húsfélagsins hafi varað íbúa hússins við því bréfleiðis að skemmdir, sem voru fyrst uppgötvaðar 2018, hefðu farið versnandi og myndu brátt margfaldast ef ekki væri farið í tafarlausar lagfæringar á skemmdunum.
Að minnsta kosti tólf manns eru látnir og 149 er enn saknað eftir hrunið.
Bréfið er sagt vera enn eitt sönnunargagn þess efnis að vitað hafi verið um skemmdir á byggingunni löngu áður en hún hrundi. Nú þegar hafa verið gefnar út kærur gegn húsfélaginu fyrir glæfralegt framferði og vanrækslu á skyldum húsfélaga.
Bréfið varaði einnig við þakskemmdum sem myndu kosta húsfélagið 15 milljónir bandaríkjadala, eða ígildi tæpra tveggja milljarða íslenskra króna að laga. Þetta bréf kemur í kjölfar skýrslu frá 2018 sem varaði við miklum skemmdum á húsinu og varaði við sprungum sem fundust í kjallara byggingarinnar.