182 ómerktar barnagrafir finnast til viðbótar

Ljós á svæði þar sem 715 ómerktar grafir barna af …
Ljós á svæði þar sem 715 ómerktar grafir barna af frumbyggjaættum fundust í Kanada í lok maí. AFP

182 ómerktar barnargrafir hafa uppgötvast við fyrrum heimavistarskóla barna af frumbyggjaættum í Kanada. Talið er að grafirnar tilheyri börnum á aldrinum 7 til 15 ára en þetta er í þriðja sinn á skömmum tíma sem mikill fjöldi ómerktra grafa finnst við heimavistarskóla sem börn frumbyggja voru send í.

Í lok maí uppgötvuðust 215 ómerktar barnagrafir og í síðustu viku uppgötvaðist 751 ómerkt barnagröf til viðbótar.

Heimavistarskólinn sem grafirnar fundust við síðast er staðsettur í Bresku-Kólumbíu og ber heitið St Eugene‘s Mission School en kaþólska kirkjan sá um rekstur skólans fyrir hönd ríkisins frá árinu 1912 fram á áttunda áratug síðustu aldar.

Grafirnar fundust með ratsjá og voru margar hverjar afar nálægt yfirborði jarðar en sumar voru ekki nema á metra dýpi.

Talið er að börnin hafi tilheyrt Ktunaxa-þjóðinni í Bresku-Kólumbíu.

Kalla eftir afsökunarbeiðni

Mikil reiði ólgar í Kanada vegna málsins og hefur eitthvað borið á skemmdarverkum vegna þess en alls hafa átta kirkjur brunnið með grunsamlegum hætti frá því grafirnar uppgötvuðust. Krefst almenningur þess að páfinn biðjist opinberlega afsökunar á ofbeldinu sem átti sér stað gagnvart börnum frumbyggja í kaþólsku heimavistarskólunum.

Hundruð einstaklinga safnast saman til að virða minningu barnanna sem …
Hundruð einstaklinga safnast saman til að virða minningu barnanna sem fundust í ómerktu gröfunum í Marieval í Kanada. AFP

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, segir uppgötvunina hræðilega en fordæmir þó eyðilegginguna sem hefur átt sér stað. „Skemmdarverk á tilbeiðslustöðum eru óviðunandi og þeim verður að linna. Við verðum að vinna saman til að rétta úr því sem rangt hefur farið. Hver og einn hefur hlutverki að gegna,“ segir forsætisráðherrann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert