Tala látinna er komin upp í 16 eftir að fjölbýlishús hrundi til grunna í Miami í Flórída í Bandríkjunum og á annað hundrað er saknað. Þetta segir Francis Suarez, borgarstjórinn í Miami, við fjölmiðla þar vestra.
Sérfræðingar skoða nú mögulega galla á byggingunni, íbúðaturni í hverfinu Surfside í grennd við strönd Miami. Byggingin hrundi á fimmtudagsmorgun, á meðan íbúar voru í fastasvefni.
Viðgerðir áttu að hefjast á húsinu fljótlega en það var 40 ára gamalt. Verktaki sem heimsótti bygginguna einungis 36 klukkustundum fyrir hrunið sagði slökkviliðinu frá alvarlegum skemmdum sem hann sá í bílskúr í kjallara hússins.
Árið 2018 voru íbúar hússins fullvissaðir um öryggi þess, að sögn Susönu Alvarez, íbúa í húsinu. „Enginn sagði okkur nokkurn tímann að húsið væri í svona slæmu ástandi,“ sagði hún í samtali við NBC.