Andreas Norlén, forseti sænska þingsins, hefur veitt Stefan Löfven, starfandi forsætisráðherra Svíþjóðar, umboð til að mynda nýja stjórn.
Löfven fær tækifærið í kjölfar þess að formaður sænska íhaldsflokksins Moderaterna, Ulf Kristersson, skilaði stjórnarmyndunarumboði í morgun. Hann sagði ekki nægan fjölda þingmanna á sænska þinginu styðja myndun borgaralegrar hægristjórnar.
Sænska ríkisútvarpið greinir frá því að Norlén segist tilbúinn að tilnefna Löfven sem forsætisráðherra síðdegis í dag, sýni hann fram á að hann geti myndað starfhæfa stjórn. Löfven er þó starfandi forsætisráðherra þar til ný stjórn verður mynduð.