Lögregluþjónn skotinn til bana í Svíþjóð

Lögregluþjónn var skotinn til bana í Gautaborg í Svíþjóð í …
Lögregluþjónn var skotinn til bana í Gautaborg í Svíþjóð í gærkvöldi, enginn hefur verið handtekinn vegna málsins enn sem komið er. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

Lögregluþjónn var skotinn til bana í Biskopsgården nord í Gautaborg í gærkvöldi, þetta staðfestir sænsk lögregla við fjölmiðla. Tilkynnt var um skotárás klukkan 22:34 í gærkvöldi að skandinavískum tíma og er að sögn sænskra fjölmiðla margt á huldu um atburðarásina.

Í fyrstu var greint frá því að lögregluþjónn og vegfarandi á svæðinu hefðu særst í skotárás, sagði vitni á vettvangi í samtali við Göteborgs-Posten að þremur skotum hefði verið hleypt af. Það var svo á þriðja tímanum í nótt sem lögregla upplýsti um að ekki hefðu aðrir orðið fyrir skotum en lögregluþjónninn sem var úrskurðaður látinn á sjúkrahúsi þar í borginni rétt fyrir klukkan þrjú í nótt.

Fjölmenn leit

„Það er með sorg í hjarta sem við meðtökum þau tíðindi að samstarfsmaður okkar hafi týnt lífi sínu eftir að hann var skotinn í kvöld. Hugur okkar er hjá fjölskyldunni, öðrum aðstandendum og vinnufélögum,“ lét Anders Thornberg ríkislögreglustjóri hafa eftir sér í fréttatilkynningu sem sænska ríkisútvarpið SVT greinir frá.

Fjölmennt lögreglulið leitaði árásarmannsins í alla nótt á fjölda bifreiða og úr þyrlum auk þess sem hundum var beitt við leitina. Enn sem komið er hefur þó enginn verið handtekinn vegna málsins, tæknideild lögreglu er enn við rannsókn á vettvangi og stendur blaðamannafundur sænsku lögreglunnar nú yfir.

Frá árinu 1900 hefur 31 sænskur lögregluþjónn verið skotinn til bana við skyldustörf, seinast í Nyköping árið 2007.

SVT

Aftonbladet

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert