118 ungmenni sem hafa verið í sóttkví á spænsku eyjunni Mallorca síðustu daga verða ferjuð í land í dag eftir dómsúrskurð þess efnis að þau sem geta sýnt fram á neikvætt covid-próf fái að yfirgefa hótel á eyjunni.
Nærri 2.000 hafa smitast af kórónuveirunni síðustu daga á Spáni og 6.000 þurft að sæta sóttkví. Vöxt faraldursins má að hluta til rekja til ferðalaga ungmenna sem fagna próflokum um þessar mundir. Um er að ræða alpha-afbrigði veirunnar sem greindist fyrst í Bretlandi.
Upphaf þessarar auknu útbreiðslu má rekja til ferðar til Mallorca þar sem hundruð ungmenna smituðust. Í framhaldinu voru 250 ungmenni skikkuð í sóttkví af yfirvöldum á hóteli í höfuðborginni Palma. Hótelið er nú þekkt sem „Hótel Covid“. Um fjórðungur sem dvelur þar er smitaður af veirunni.
Foreldrar ungmennanna kærðu sóttkvíarhótelvistina og í gær úrskurðaði dómari að þau ungmenni sem geta sýnt fram á neikvætt próf þurfi ekki lengur að vera í einangrun á hótelinu. Ferja með 118 ungmenni um borð lagði af stað til Valencia í morgun en eru þau í afmörkuðum hluta ferjunnar og mega ekki hafa samskipti við aðra farþega.
Fulltrúar heilbrigðisyfirvalda frá heimabæjum ungmennanna taka á móti þeim við komuna til Valencia og meta hvort þörf sé á frekari sýnatöku áður en þau fá að halda ferð sinni áfram.
Síðustu daga hefur myndefni frá „Hótel Covid“ sýnt reið ungmenni hrópa fram af svölum hótelsins „Við erum neikvæð!“. Lögreglan í Palma segir í samtali við AFP-fréttastofuna að kvartað hafi verið undan hávaða frá hótelinu síðustu daga auk þess sem hlutum hefur verið kastað fram af svölum og lök nýtt til að hífa upp áfengi og aðrar „nauðsynjavörur“.
Bæði ungmennin, sem eru óbólusett, og yfirvöld á Mallorca hafa verið gagnrýnd fyrir ábyrgðaleysi vegna málsins.